Um Helga Guðmundsson

Helgi Guðmundsson var fæddur á Tjarnarkoti (Tjörn) í Torfustaðahreppi í Vestur-Húnavatnssýslu, þann 9. nóvember 1881. Foreldrar hans voru Guðmundur Helgason og Sigurlaug Helga Stefánsdóttir, bæði Húnvetningar langt fram í ættir. Jörðin Tjarnarkot liggur skammt norðan við þjóðveginn um Hrútafjarðarháls, bæjarstæðið er berangurslegt, skjóllítið fyrir öllum vindáttum og næsta umhverfi holt og móar og virðast því landgæði fremur lítil, án þess þó að fullyrt verði um það hér.

Bærinn Tjarnarkot
Helgi var einkasonur hjónanna í Tjarnarkoti, en þau eignuðust auk Helga eina dóttur Sigurlaugu að nafni. Það lá því beint við að Helgi tæki við búskap á jörðinni ásamt konu sinni Þóru Jensínu Sæmundsdóttur, þegar foreldrarnir fóru að reskjast. Þau Helgi og Þóra eignuðust fyrsta barnið árið 1907 og á 11 ára tímabili eignuðust þau 6 börn til viðbótar, mannvænleg öll og náðu þau fullorðinsaldri. Einn sonur þeirra, Karl Helgason, fv. kennari er enn á lífi og býr í Kópavogi við góða heilsu og lítið skert minni, á 92. aldursári þegar þetta er ritað.

Búskaparbasl og erfitt árferði gengu nærri heilsu hjónanna í Tjarnarkoti og þegar kemur fram á þriðja áratuginn eru þau orðin nær heilsulaus, slíta sambúð, leysa upp búið og koma börnunum fyrir hjá vinum og vandamönnum og leita sér lækninga við krankleik sínum. Þóra andaðist ekki löngu síðar, en Helgi komst til nokkurrar heilsu, eftir langa vist undir læknishendi, þó bæklaður og hokinn líkt og með herðakistil.

Sér til dægradvalar, meðan á veikindunum stóð, fór Helgi að fást við ættfræði, örnefnasöfnun og annað fræðagrúsk, sem ekki hafði í för með sér líkamlega áreynslu. En löngun til að sinna þessum áhugamálum hafði bærst með honum á búskaparárunum, þó þá gæfust vart nema stolnar stundir til lesturs og skrifta. Helgi var óskólagenginn eins og algengast var hjá alþýðu manna á þessum tíma, en hann var bráðgreindur og stálminnugur og því vel fallinn til þessarar iðju og tók upp frá þessu að kalla sig ættfræðing.

Skömmu fyrir 1930 flyst Helgi til Siglufjarðar, sem á þessum árum var einn mesti uppgangsstaður á landinu. Hann ræður sig til vinnu hjá Ólafi A. Guðmundssyni, sem kom frá Ingólfsfirði og saltaði síld ásamt Jóni bróður sínum á Wedin-stöðinni, sem var næst sunnan við söltunarstöð Ola Henriksen og var síðast þekkt, sem söltunarstöð Sigfúsar Baldvinssonar. Milli síldarvertíða sinnti Helgi hugðarefnum sínum og drýgði tekjur sínar með því að rekja og skrá ættir Siglfirðinga gegn vægu gjaldi. Nokkur sumur kom Karl sonur hans til Siglufjarðar og vann fyrsta sumarið, sem ræsari á Wedin-stöðinni, en síðan flest almenn störf við síldarsöltunina m.a. sem beykir og bílstjóri. Hann stundaði skóla á vetrum, lauk námi sem kennari og starfaði sem slíkur fyrst á Sauðárkróki og síðar á Akranesi.

Helgi Guðmundsson

Meðan Helgi dvaldist á Siglufirði bjó hann í einu herbergi á neðri hæð Íslandsfélags-hússins og líklega hefur það verið tilviljun, sem þó hefur sennilega hentað fræðimanninum vel, að á sama tíma er Bókasafn Siglufjarðar starfandi í öðru herbergi í sama húsi. Bókakostur á safninu var fremur fátæklegur á þessum árum, en hagur safnsins vænkaðist mjög þegar bókasafn Guðmundar Davíðssonar bónda á Hraunum, liðlega 5300 bindi af úrvals bókum, var keypt í einu lagi og bætt við þann bókakost sem fyrir var. Safnið þurfti því nýtt húsnæði en flutti ekki langt, heldur í næsta hús, á neðri hæð Eyrargötu 3 svo Helgi var áfram í návígi við safnið og hefur vafalítið notfært sér þau gögn, sem þar var að finna. Hinrik Aðalsteinsson, sem átti heima í Íslandsfélagshúsinu á sama tíma og Helgi man eftir að hafa nokkrum sinnum séð inn í herbergi hans og lýsir því þannig: „Innbúið var dívan, stóll og borð þar sem hann sat við skriftir. Að öðru leyti var herbergið fullt af bókum, handskrifuðum blaðabunkum og skjölum svo vart var hægt að drepa þar niður fæti.“ Þarna var þá samankominn grunnurinn að grúski Helga. Í húsinu bjó einnig Magnús Vagnsson síldarmats-stjóri, fjölfróður maður og skemmtilegur og vitað er að góður kunningsskapur tókst með Helga og Magnúsi og fjölskyldu hans.

Ekki entist Helga lengi það verkefni að rekja ættir Siglfirðinga og tók hann sér þá fyrir hendur að setja saman drög að byggðasögu, sem hann nefndi: „Landnám Þormóðs ramma og Úlfs víkings.“ eftir Helga Guðmundsson (og undir fyrirsögn) „Siglunes-hreppur“ og „Úlfsdalir“ Jafnframt safnaði hann saman örnefnum á öllum jörðum hreppsins (kaupstaðarins), sem þá voru sem óðast að leggjast í eyði. Ekki er vitað hvort einhverjir hvöttu hann til verksins, en allnokkrum var kunnugt um þessa iðju hans og var hann meðal annars fenginn til að setja saman erindi um þetta verk sitt og flytja á fundi hér í bæ. Ekki tekur Helgi fram hvaða félag var þarna um að ræða, en geta má þess til að þetta hafi verið Húnvetningafélagið, sem var eitt af nokkrum átthagafélögum, sem störfuðu á þessum tíma af talsverðu fjöri á Siglufirði, en ekkert skal þó um það fullyrt. Helgi hefur ekki alltaf verið auðugur af pappír því lítið innskot, sem hann bætir í erindið, er ritað aftan á kvittun frá Tunnuversmiðju Siglufjarðar, sem sýnir að þann 13/10. 1937 hefur Helgi keypt og greitt 10 tunnur af verksmiðjunni á 5 krónur stykkið. Tunnukaupin hafa átt sér stað í miðri sláturtíð, en ég læt öðrum eftir að geta sér til um, til hvers Helgi hefur notað tunnurnar.

Karl Helgason

Erindi þetta er varðveitt í handriti Helga og þar kemur fram að honum finnst Siglfirðingar vera fáfróðir um fortíð staðarins og „að óvíða muni vera erfiðara að afla sannsögulegra upplýsinga frá liðinni tíð“ og fróðleik fær hann lítinn frá Siglfirðingum „utan kynjasögur, flestar furðanlega fjarlægar því sem samrýmst getur heilbrigðri skynsemi.“ Því miður hefur Helgi ekki séð ástæðu til að skrá neitt af þessum kynjasögum og munu þær því flestar alveg glataðar og er það skaði að ekki sé meira sagt, en ekki er við Helga að sakast í þeim efnum, hans áhugamál voru á öðrum sviðum. Helgi skoðar jarðir í Siglufirði og nágrenni með augum bóndans og jafnvel á hinum rýrustu kotum sér hann fyrir sér blómleg túnefni og fagrar engjar og honum hrýs hugur við að sjá „þær stórskemmdir vegna mótekju sem orðið hafa á hinum fegurstu engjalöndum flestra býla, síðan þorpsbúum fjölgaði og virðist nú mjög úr hófi keyra að síðustu.“ Þá ofbýður Helga yfirgangur kirkjunnar og ásælni Hólastóls í jarðir bænda, því helstu heimildir um búskap hér á liðnum öldum er að finna í eigna- og tekjuskrám Hólastóls, sem um aldir átti þessa sveit nær alla og meiri hlut Fljóta og gengu kennimenn hart fram í innheimtu landskulda sem greiddar voru í harðfiski, en leigur í smjöri og lýsi. Örlar víða í skrifum hans á megnri andúð á yfirgangi og framferði hinna geistlegu valdsmanna gagnvart bændum og leiguliðum.

Öðru máli hefur gegnt um heimildir þegar Helgi hóf að skrá örnefnin, þar kom hann ekki að tómum kofunum hjá heimamönnum, því áður en yfir lauk hafði hann skráð nær 1300 örnefni á 26 nafngreindum bæjum og býlum. Þetta hefði hann trauðla getað án aðstoðar staðkunnugra manna og líklega hefur Helgi heimsótt flesta þá bæi, sem í byggð voru meðan hann bjó á Siglufirði, því svo skipulega er skráningin gerð að tiltölulega auðvelt væri að rekja sig frá einu kennileiti til annars, en því miður lætur hann hvergi getið um hverjir eru heimildarmenn hans. Með þessari skráningu á örnefnunum og öðrum fróðleik varðandi byggðirnar yst á Tröllaskaga hefur Helgi bjargað miklum menningarverðmætum frá glötun og gleymsku, sem yfir þeim vofði þegar búskap var hætt á hverri jörðinni af annarri og sveitirnar umhverfis Siglufjörð lögðust í eyði. Það er því full ástæða til að varðveita minningu Helga Guðmundssonar og flytja síðbúnar þakkir fyrir það mikla verk.

Sýnishorn af rithönd Helga

Sumarvinnan við síldina var erfiðisvinna og að því kom að heilsan hjá Helga tók að bila á nýjan leik, enda var hann, sem áður segir, bæklaður af afleiðingum fyrri veikinda. Hann fór því suður til Reykjavíkur að leita sér lækninga þar. En hann átti ekki afturkvæmt til Siglufjarðar. Helgi lést á Landspítalanum 21. apríl 1944 og er þá talinn til heimilis á Laugavegi 44, Reykjavík. Útför hans var gerð frá Dómkirkjunni 4. maí og hann er jarðsettur í kirkjugarðinum í Fossvogi þar sem legstaður hans er í reit D-3 númer 009.

Eins og fyrr getur var Karl sonur Helga orðinn kennari á Sauðárkróki og það kom því í hans hlut að ganga frá þeim fátæklegu reytum, sem faðir hans lét eftir sig á Siglufirði. Þær voru aðallega mikið magn af handskrifuðum blöðum auk nokkurra bóka, bæklinga og blaða, sem Helgi hafði safnað og skráð í sambandi við ættfræðina og önnur hans áhugamál. Karl kveðst hafa valið úr þau gögn er vörðuðu Siglufjörð og afhent þau Gísla Sigurðssyni, bókaverði til varðveislu ásamt nokkru af bókunum úr búi föður síns, en öllum öðrum ritum Helga var pakkað niður með öðrum bókum og blöðum og þau send til séra Jóns Guðnasonar, en þeir Helgi voru gamlir kunningjar og áhugamál þeirra lágu saman á ýmsum sviðum fræðimennskunnar. Ekkert er síðan vitað hvort séra Jón gat nýtt sér eitthvað af gögnum Helga, né hvað um þau varð að Jóni látnum. Ef til vill eiga þau eftir að skjóta upp kollinum hjá einhverjum grúskara, sem telur það ómaksins vert að eyða tíma sínum í að rýna í þessi gömlu skrif, en kannski hafa þau öll glatast af einhverjum öðrum og ókunnum ástæðum. Ef einhver sem þetta les veit um afdrif þessara blaða væri fróðlegt að fá af því fregnir.

En þeim feðgum Helga og Karli verður seint fullþakkað fyrir varðveislu blaðanna frá Helga og þær minjar úr sögu Siglufjarðar, sem þau hafa að geyma og forðað er frá gleymsku fyrir atbeina þeirra og framsýni.

HPB, Siglufirði í apríl 2005.


Fara efst á síðu