Héðinsfjörður

Sandgrund og fjöll í bakgrunniSá bær má ætla að hér hafi mestur verið og lengi kunnastur þó nú sé gleymdur og hér öllum ókunnur. Hefir hann staðið fyrir botni fjarðarins, utan hins mikla stöðuvatns sem þar liggur næst inn frá og út að hlíðum tveim megin. Er þar eiði eitt á milli af sandöldum, fornum, sléttum og vallgrónum og byggðarstæði því gott og fagurt. Má nær víst telja að hér hafi verið reist hin fyrsta byggð fjarðarins og lengst hefir hér byggð varað, er á aldir leið og í auðn tók að falla, er þessa býlis hér oft eins getið á 14. 15. og 16. öld, og þó stundum í eyði. Hefir bær þessi staðið inn við vatnið og fast vestan við ósinn þar úr því fellur, sést þar enn byggðarúst allhá og mikil og grjótlög nokkur utar á berum sandi, því mjög hefir hér blásið upp hið næsta og besta túnsins og byggð þessi því að lokum eyðst að fullu, líklega um lok 16. aldar.


Útsýni yfir Víkurland að austanverðuHér hefir og kirkja verið og síðar bænhús, og grafreitur fjarðarbúa. Stóð það enn um 1709 og nokkuð lengur og þó ferðabók telji þá bænhúsið í Vík. Sýnir það aðeins, sem fleira, hvað bágar voru hér þá upplýsingar íbúanna, er að engu geta þessa býlis. Átti Vík þá og lönd þessi og hafa þar fjárhús verið lengi og líklega alltaf. Er hér enn geymt í minni bænhús þetta, en bærinn ekki. Hans getur þó Olavius 1780. Tún hefir hér vafalaust mikið verið á fyrri öldum, enda túnefni vítt og fagurt, en hefir fljótt fölnað er ræktun þraut, þar sandur er undir. Fornar girðingar sjást þó ekki, er og sjálfgirt af vötnum að meiri hlut og gætu huldar verið af skriðum undir hlíðunum og ekki að sjó haldist sakir brima. Lönd öll má ætla að býli þetta hafi lengi átt umhverfis fjörðinn og vatnið, utan suðausturhorn þess, þar lönd Grundar hafa líklega legið og þá mest verið býla allra í byggðum þessum að löndum og hlunnindum, einkum fjörubeit rekum og silungsveiði, auk heimræðis; en engi minni og þó góð innan vatns og vestan nokkur.

Útsýni yfir Víkurland að austanverðuLöndin austan fjarðar hefir Vík fengið þá hún varð býli, og flestar nytjar þessara landa þá hér varð auðn. Þá var þó annað býli reist vestan vatnsins er taldist 1/3. móti Vík. Naut það vesturhlíðanna meðan það stóð, en Vatnsendi þó innsta hluta þeirra og Vík þar engja fram á 18. öld, uns allt lagðist þetta til Víkur. Var hún þá lengi ein byggð. Enda þótt vel færi býli þessu nafnið Héðinsfjörður er út við hann hefir eitt staðið og átt þar allar nytjar, hefir samnefni þess við hann því valdið, hvað fljótt gleymdist nafn þess. Nefnist eyðiból þetta 1780 Sandvellir (2) en svo nefnist nú svæði þetta vestan óssins, en austan hans: Sandgrund (3). Hefur og Héðinsfjarðarsandur (4) nefnst fyrir fjarðarbotni öllum, þó nú nefnist Víkursandur. Dalurinn allt út til sjávar: Héðinsfjarðardalur (5). Vatnið: Héðinsfjarðarvatn (6). Útfall þess: Héðinsfjarðarós (7) og aðaláin, allt inn til fjalla: Héðinsfjarðará (8).
Vel gat og nafnið Sandvellir átt við þetta býli, og hugsanlegt er að því nefnist það Héðinsfjörður í skjölum Hólastóls að þar hafi það lengi verið hin eina byggð og alls fjarðarins notið; fór líkt því um Úlfsdali. Vafalaust hefir austurhlíðin, innan fjarðarhorns og Kleifanna er áður getur, þessu býli tilheyrt, meðan það stóð, þó Vík hafi þá byggð verið. Eru þar upp frá Sandgrund, ofarlega í fjallinu gilhvörf nokkur nefnd Hraunskálar (9). Falla skriður og snjóflóð oft þaðan á grundina og í fjarðarhornið um Syðra-Kleifagil. Hafa þar farist nokkrir menn frá Vík, á leið til fjárhúsa á Sandvöllum. Tveir 1841, einn 1919 og líklega tveir ungir bræður 1792 og 1799.

BangsagjáLítið inn með vatninu gengur fram að því melhöfði, nefndur Arnarhóll (10) er innan við hann Arnarhólsvík (11) en út og upp frá honum nokkrar grösugar dældir, nefndar: Katlar (12). Nokkuð innar, upp í fjallinu er allstór skál; er niður frá henni gil og lækur allmikill; hefir framburður hans myndað allbreitt nes fram í vatnið, nefnist það: Steinnes (13), skálin Steinnesskál (14), gilið Steinnesgil (15), lækurinn Steinneslækur (16) og melhöfði sunnan gilsins, upp í skálarbarmi Steinneshaus (17). Innan Steinness er Steinnesvík (18) og upp frá henni gildrag: Steinnesvíkurgil (19). Þar ofar á fjallinu, milli Steinnesskálar og Vatnsendaskálar er allhár kollóttur hnjúkur, nefndur: Steinneshnjúkur (20), er hann vestur frá Ytri Vatnsendahnjúk og mun lægri. Eru merki nú um Steinneslæk talin, en hafa innar verið; líklega um hnjúkinn og utan Vatnsendaholta og máski í fyrstu um Stóra-Læk eða innar, því víst hefir Héðinsfjörður átt nokkuð Vatnsendalanda.

Vestan Héðinsfjarðar er undirlendi ekkert, gengur þar út fjallarmur hár og brattur er nefnist: Hestfjall eða Hestur (21). Er hann nálega skilinn frá öðrum fjöllum á skaga þessum því inn vestan hans gengur: Reyðarárdalur er síðar getur, en innan hans vestur, þverdalur lítill, yst frá Héðinsfjarðardal; skilur botna þeirra þó há fjallsegg. Vestan fyrir botni þverdalsins er og örþunnur hryggur, því annað dalhvolf gengur þar móti honum. Á hrygg þessum er og grunnt skarð, nefnist það Hestskarð (22) og dalurinn Hestskarðsdalur (23). Kvísl úr honum fellur í Héðinsfjarðarvatn: Hestskarðsá (24) og eyri er hún hefir gert fram í vatnið: Hestskarðseyri (25). Upp um dalhvolf þetta og skarð er styst leið til Siglufjarðar og tíðfarin, nefnd: Hestskarðsleið (26). Er hún allbrött upp til skarðsins einkum að vestan og þar hætt við snjóflóðum á vetrum, fórust þar 2 Héðinsfirðingar á síðustu öld 1833 og 1891 sumarleið mætti þar þó allgóð vera og hestfær ef viðhald ekki skorti, sem hér hvervetna.

Fjallgarðurinn Sunnan Hestfjalls

Lindar og Breiðholt

 

 

 

 

 

 

 
Austan skarðsins, nær leiðinni, ofarlega, eru steinar tveir, nefndir: Bræður (27). Niður frá mynni dalsins er grösug og allhá hlíð, vestan ytri hluta Héðinsfjarðarvatns. Í henni, utan Hestskarðsár nokkuð upp frá vatninu, var býlið Brúnakot (28), kennt við neðri brúnir dalsins. Hefir það byggt verið á löndum Héðinsfjarðar snemma á 17. öld þá hann var í auðn komin sem getið er, en fór í auðn um 1690. Eru þar tóftir litlar, vel skýrar, tún ekkert, en engjar nokkrar umhverfis. Þar nefnist nú hlíðin, út til strandar: Brúnakotsfjall (29). Niður af brúninni, næst sunnan Hestskarðsár gengur mjór hryggur, niður með honum að sunnan löng grösug dæld en sunnan hennar breiður lynggróinn melur nefnist hann: Breiðholt (30) hryggurinn Breiðholtshryggur (31) og lautin Breiðholtslaut (32). Er hún engjateigur góður en talin „bannblettur“ sem fleiri fegurstu nytjablettir hér. Sunnan í Breiðholtshrygg er og Breiðholtssteinn (33) mun íbúum hans helguð lautin.

Hesturinn - suðurhlutiHesturinn - norðurhluti

 

 

 

 

 

 

 

Á báti í TorfuvogiInn frá Hestskarðsdal er fjallshnjúkur hár, innan hans skál allstór, austan í fjallinu, inn frá henni önnur minni skál, ofarlega og innan hennar einnig hár hnjúkur. Nefnast skálar þessar: Ytri-Fýluskál (34) og Syðri-Fýluskál (35) en hnjúkarnir: Ytri-Fýluskálarhnjúkur (36) og Syðri-Fýluskálarhnjúkur (37). Í hinni ytri og meiri skál, hefir heyjað verið, er þar tóft ein lítil, nefnd: Höskuldartóft (38) og minnir á Grundarkots Höskuld. Niður frá skál þeirri falla tveir lækir innarlega í Héðinsfjarðarvatn, nefndir: Ytri-Fýluskálarlækur (39) og : Syðri-Fýluskálarlækur (40). Milli þeirra við vatnið er og Fýluskálareyri (41). Þar um hina háu hlíð að neðan Fýluskálarhryggur (42). Þar niður um hlíðina, tveim megin, allt út frá horni vatnsins, eru og lækjadrög mörg, og milli þeirra smá hryggir og rindar víða lyngvaxnir, og nefnist svæði þetta: Lindar (43).

Inn frá vatninu eru engi góð og samfelld; gengur þar næst því austur að ánni, nes allmikið nefnt: Víkurnes (44). En þar átti Vík engi þegar á 17. og 18. öld, þó lönd hefði þá Vatnsendi vestan ár, hér innra, en Brúnakot ytra. Virðast þannig hafa skipst lönd Héðinsfjarðar þá hann fór í auðn. Nokkuð innar er allstórt nes, nefnt: Syðra-Víkurnes eða Björnsnes (45) mun það hafa lagst til Víkur snemma á síðustu öld, en þá bjó þar Björn Þorkelsson er þar dó gamall og „vel fjáður“ 1833 og átt mun hafa Vík og Vatnsenda. Upp frá Björnsnesi, í hlíðarrótunum, eru og hávaðar nokkrir, nefndir: Björnsneshjallar (46). Fellur Merkjalækur er áður getur sunnan þeirra og nessins, en merki hið efra um Syðri-Fýluskálarhnjúk. Upp frá engjalöndum þessum nær miðju, út frá hjöllunum er: Tjaldgrund (47). Austan í Hestfjalli, skammt út frá Hestskarðsdal, en upp frá norðvesturhorni Héðinsfjarðarvatns er gildrag allt ofan úr háfjalli, nefnt: Góðagjá (48) mun upp um hana vera ein hin skásta leið yfir fjallið, í botn Reyðarárdals. Utan við gil þetta vel miðhlíðis er berg eitt, nefnt: Vatnsklettur (49).

Hestur - KapalgjárVestan Héðinsfjarðar eru hlíðar mjög brattar, víðast með gróðurlitlum skriðum en neðan þeirra eru sæbrattir hamrabakkar allt inn fyrir horn fjarðarins nefnast innst í þeim, upp frá víkinni: Víkurkleifar (50). Framan í þeim er kindum hætt við að festast og nefnist þar: Festaklettur (51). Gildrag er þar og ofan úr háfjalli, utan við kleifarnar, nefnt: Kleifagil (52). Þar skammt utar, lítið frá landi, er stakur steinn, nefndur: Selsteinn (53). Litlu utar eru skörð tvö í háhrygg fjallsins, nefnd: Pútuskörð (54) er út og upp til þeirra einnig kunn gangleið yfir í Reyðarárdal. Allt niður frá skörðunum eru tvö gil, nefnd: Innri-Pútuskarðagjá (55) og Ytri-Pútuskarðagjá (56). Út frá þeim undir bökkunum eru vogar nokkrir nefndir: Bæjarvogar (57) nefnast þeir í sóknarlýsing 1840 „Innidrápsvogar“. Þar hafa og síðar verið selalagnir nálægt, en aldrei innidráp og nú hvorugt. Upp frá vogunum eru grasflesjur nokkrar, neðst í hlíðinni, nefndar: Innri-Bæjartorfur (58) og út frá þeim Ytri-Bæjartorfur (59) skilur þær gilrauf er allt gengur ofan af háfjalli. Er þar grunnt skarð í hrygg fjallsins, nefnt: Breiðaskarð (60) og gilið Breiðaskarðsgjá (61). Skammt utar, upp um ytri torfurnar, gengur önnur gjá, styttri, nefnd: Uppgöngugjá (62) því upp á torfurnar verður helst um hana farið. Fram undan ytri torfunum eru klettabríkur nokkrar, nefndar: Strillur (63) og út frá þeim vík lítil, nefnd: Strilluvík (64). Út og upp frá henni eru og grastindar nokkrir nefndir: Spælar (65). Innan við þá, en utan torfanna er og gil ofan úr fjalli, nefnt: Spælagjá (66). Út frá Spælunum eru enn tvö gil, ofan úr háfjalli, og spölur nokkur á milli, nefnist hið innra og meira: Innri-Kapalgjá (67) hið ytra og minna: Ytri-Kapalgjá (68). En milli þeirra nefnist: Ófærastykki (69).

Hestur - VogatorfurUtan við Ytri-Kapalgjá er berghöfði nokkur fram úr bökkunum og á honum grastó; nefnist hann því: Græniforvaði (70). Frá honum út með hlíðinni eru fyrst vogar nokkrir nefndir: Ytri-Vogar (71) en utar þar vík ein, nefnd: Hestvík (72). Upp frá henni er enn gjá mikil, allt af háfjalli ofan, nefnist hún: Bangsagjá (73) og hefir hún að fornu og nýju skilið lönd Héðinsfjarðar og Reyðarár. Milli Ytri-Kapalgjár og Bangsagjár, allt ofan voganna, er gróður allmikill um neðri hlut hlíðarinnar; nefnist þar innri hlutinn: Innri-Vogatorfur (74) en ytri hlutinn: Ytri-Vogatorfur (75) skilur þær gjá sú, er nokkuð nær upp hlíðina, nefnd: Torfugjá (76). Mjög sækir fugl á svæði þetta og er þar varp nokkurt, þó að litlum notum komi eigendum; en mikið mætti þar varp vera og hlunnindi stór, sem og víða í þessum byggðum, ef nokkurs friðar nyti; en slíkt er hér enn hvarvetna óþekkt. Er og meir sótt til rána á slíka staði, en ókunnugir mundu ætla mega einkum af Siglfirðingum.

Pútuskörð

Ytri bæjartorfur