Ámá

Ámá (stundum kölluð Bæjará)Vestur frá Héðinsfjarðardal, gegnt Möðruvöllum, gengur þverdalur einn, mun grynnri; er því brún allhá niður frá mynni hans. Fellur þar á lítil fram úr honum nefnd: Ámá (2). Ekki er nú kunnug orsök þessa nafns. En bær samnefndur ánni hefur staðið á suðurbakka hennar, undir hlíð þessari. Er þar byggðarstæði allgott og umhverfi grösugt. Fornbýli er þetta augljóst og garður forn og mikill ofan túns og sunnan, að neðan bakkar Héðinsfjarðaár, en að norðan bakkar Ámár; rennur hún þó fast við bæinn og hefir hið forna tún aðeins verið innan hennar og ekki stórt. En á síðustu öldum hafa fjárhús verið utan ár og þar nokkurt tún ræktast, enda suðurtúnið þá mjög spillt af vatni, er hinn forni garður hefir áður frá haldið. Haglönd eru hér mikil, allt inn og upp til háfjalla, umhverfis dalina og drjúgum út á hlíð og þar og víðar hin ágætustu. Engi mikil og grösug, nær og fjær svo óvíða eru hér slík. En vetrarþungt sem og á hinum þessum býlum og snjóflóðahætta allmikil út frá bæ; hafa þar oft farist hross og sauðfé.

Eins og tvö hin síðasttöldu fornbýli, hefir þetta býli í auðn legið að mestu frá 1300 - 1600 verið byggt lengi á 17. öld en í eyði frá 1702 alllengi og aftur frá 1752 um nokkra hríð. En byggt nær stöðugt síðan til 1925 en síðan í alauðn. Mætti hér þó stórt bú hafa og búsæld vera í dal þessum. Forn örnefni munu hér fá, sem á hinum býlunum. Nefnist hér ofan bæjar, niður frá mynni þverdalsins: Ámárbrún (3) en dalur sá Ámárdalur (4). Suðaustan hans, því allmikið liggur hann suðvestur, en vestan Héðinsfjarðardals, eru hnjúkar tveir, er skarð allmikið skilur; nefnist hinn ytri Neðri-Ámárhyrna (5) hinn fremri Efri-Ámárhyrna (6). Þá nefnist hið næsta undirlendi út frá bæ: Ámáreyrar (7) en víðlent engi skammt utar: Ámármýrar (8). Í hinu forna túni, sunnan ár er hólbali aflangur, nær syðst, nefndur: Langhóll (9). Þar eru og hávaðar nokkrir með tóftum og nefnist hinn innsti: Syðsta-Gerði (10) en upp frá bæ nefnist: Uppvöllur (11).

Botn HéðinsfjarðarUtan ár er land lægra og tún þar einnig mýrlent, þó með hávöðum nokkrum. Skipta lækjadrög því í tungur. Nefnist hin innsta þeirra: Árgerði (12), þá hin næsta utar og ofar: Lambhúsgerði (13). Þá út frá henni: Miðgerði (14) og yst: Hesthúsgerði (15). Eru þar hesthústóftir, en tóftir fjárhúsa nýlegar á tveim hinum næstu. Braut snjóflóð fjárhús á Miðgerði vorið 1919 og fórst þar 1 maður og 29 ær. Voru flóð þá hér víða óvenju mikil, en einsdæmi talið að hér væri byggðum hætt, þó títt falli þau utar og óhætt mun hinu forna túni. Upp á Ámárbrún, sunnan ár, er Miðaftansteinn (16). En norðan ár í brúninni melhöfðar nokkrir er giljadrög aðskilja. Er þar næst ánni: Árhjalli (17) þá: Árhjallagil (18) þá: Mjói-Hjalli (19) þá: Háa-Högg (20) þá: Breiði-Hjalli (21) og yst: Ysti-Hjalli (22). Út og upp frá honum eru nokkur smálækjardrög ofan hlíðina og nefnast röðlarnir milli þeirra: Rindar (23).

Út frá Ámáreyrum, nokkuð út frá bæ, hefur stekkur verið á skriðugrund sléttri, nefnist hún: Stekkjargrund (24). Utan hennar fellur: Stekkjarlækur (25). Utan hans er einnig önnur og stærri grund nefnd: Stóra-Grund (26). Þar nokkuð ofar í hlíðarrótunum er og lítil skriðugrund, nefnd: Litla-Grund (27) og þar Litlu-Grundarlækur (28). Niður og út frá Stóru-Grund eru Ámármýrar áður nefndar, víðlent og fagurt flæðiengi; nokkuð votlent; en neðan þeirra með ánni er slétt harðvelli. Upp af því á sléttum grösugum síkisbakka er mikil gömul byggðarúst, er nú nefnist: Geirhildargarðar (29). Er hér talið að býli hafi verið á fyrri tíðum þótt hvorki sjáist né finnist nein rök til þess; er það og ólíklegt því oft hlaupa snjóflóð hér niður og svo er hér láglent að nær allt mun undir vötn og ísa fara á vetrum umhverfis. Er þetta vafalaust heygarður mikill frá fyrri öldum, því að honum liggja engið og þurrkvöllur, sem best má vera. Er austur þar við ána nefnt: Geirhildargarðanes (30).

Útsýni af ÁmárbrúnUpp í hlíðarhallanum niður og út frá Ystahjalla, er móareitur grænn, nefnast þar: Syðstu-Grænur (31). Þar er og nefnt: Syðsta-Kot (32) og haldið að býli hafi verið. Engar sjást þó líkur til þess né byggðaleifar neinar. Nokkuð utar í hlíðinni á melhól litlum eru tóftaleifar 2 – 3 nefnist þar: Mið-Kot (33). Er það beint upp frá Ámármýrum og Geirhildargörðum. Hafa þar líklega beitarhús verið um hríð. Hefir melhöfðinn ræktast og nokkuð niður frá honum og nefnast það: Mið-Grænur (34). Þar hjá fellur og: Mið-Grænulækur (35). Þar skammt utar, á öðrum melhöfða, eru og tóftaleifar, máski 3 – 4 en miður glöggar; virðast þær að mestu hafa burtsorfist af snjóflóðum. Nefnist þar: Ysta-Kot (36) og niður frá því: Ystu-Grænur (37). Munu hér og hafa verið fjárhús um stund, enda landgæði hvergi meiri. Það er og hugsanlegt að húsmannsbýli hafi verið á öðrum hvorum þessara staða og helst á 17. öld, þá einna mest var hér byggð, því fornar eru þessar tóftir ekki. En skammt hafa hér byggðir haldist, fyrir hinum tíðu snjóflóðum, og engar geta heimildir um byggðir þessar, né slys er þar hafi orðið.

Næst út frá Ámármýrum, er skriðugrund mikil, forn og gróin, er nú nefnist: Hestaflóðsgrund (38) líklega frá 1866. Fórust þar þá 7 hross Ámárbónda og um 40 fjár. Um 1820 tók og snjóflóð 5 hross, þar eða litlu utar. Út og niður frá grund þessari er mýrarstykki nokkurt, nefnt: Partmýri (39) er hún hluti Ámármýra og tengd þeim neðan grundarinnar. Bendir nafnið til þess, að hún hafi verið í þeim landshlut er Möðruvellir höfðu til nytja og Jarðabók 1712 nefnir “Möðruvallapart”. Út og upp frá mýrinni, en út frá Hestaflóðsgrund er og allstór grund og þurrkvöllur góður nefnist hún: Fúlgugrund (40) og utan hennar: Fúlgugrundarlækur (41). Þá utan hans: Gíslagrund (42). Við ána, út og niður frá henni: Gíslagrundarnes (43). En utan hennar: Gíslagrundarlækur (44). Þá utan hans: Merkjagrund (45) og utan hennar: Merkjalækur (46).

Áð á HólsskarðiNæst suður frá túni eru mógrafir miklar og lækur lítill nefndur: Grafalækur (47). Skammt innar er mikil grund slétt og vallgróin nefnd: Skriðugrund (48) og innan við hana: Skriðugil (49). Nokkuð innar er: Stóra-Gil (50) og innan þess: Stóri-Hvammur (51). En utan þess, milli giljanna melhorn eitt nefnt: Stóragilsnef (52). Inn frá Stóra-Gili, ganga melhöfðar víða fram að ánni; nefnist hinn ysti þeirra: Ysti-Haus (53) þá nokkuð innar: Mið-Haus (54) þá enn innar langur melhöfði gróinn að framan: Langi-Haus (55) og þá hinn mesti og fegursti, nefndur: Álftarhaus (56). Upp af honum er og Efri-Álftarhaus (57) en utan þeirra gil allmikið: Álftarhausgil (58). Ofan við hausa þessa niður frá Neðri-Ámárhyrnu er lægð allmikil grösug með dældum nokkrum og tjörnum nefnast það: Hausaskálar (59). Inn frá Álftarhaus eru og enn melhöfðar nokkrir, er nefnast: Fremri-Hausar (60). Skammt inn frá Álftarhaus er og fagur grösugur bekkur nefndur: Lambhagi (61). Inn frá honum er Breiðaskriða (62) og upp frá henni Breiðuskriðuhaus (63) (Skriðuhaus) [63b], er hann einn hinna Fremri-Hausa. Niður um skriðuna fellur og: Breiðuskriðulækur (64) en sunnan hennar er stakur steinn mikill: Breiðuskriðusteinn (65).
Þar inn frá með ánni er þurrlendi nokkurt grösugt er nefnist: Balar (66), er það gegnt samnefndu svæði austan árinnar. Innan við Bala í gildragi einu, nær við á niður er mikill húslagaður steinn, nefndur: Álfasteinn (67). Þar nokkuð innar fellur kvísl ein í Héðinsfjarðará kemur hún innan og ofan frá vesturhluta Þverfjallsins sem getið er. Nefnist suðaustan hennar, fyrir botni dalsins, að Héðinsfjarðará: Tungur (68) en kvísl þessi Tungnaá (69). Inn frá Tungunum vestan við Kollóttahnjúk [Kollóttihnjúkur (69b)] áður nefndan er: Vestara-Sandskarð (70). Vestast norðan þverfjallsins, ofarlega, austur frá Efri-Ámárhyrnu, er hvolf allmikið, nefnt: Kolfinnuskál (71) er talið að þar hafi úti orðið kona er Kolfinna nefndist og villst hafi af Botnaleið er hér verður getið. Skammt utar og allmikið neðar er Litla-Skál (72) og neðan hennar: Litlu-Skálarbrúnir (73) eru þær inn frá Fremri-Hausum áður nefndum.

Neðri ÁmárhyrnaUpp og út frá Litlu-Skál, allmikið ofan Fremri-Hausa og allt út undir Neðri-Ámárhyrnu, eru hæðastallar nokkrir nefndir: Fell (74). Um þetta svæði hefir alkunn leið verið sumar og vetur allt frá Ólafsfirði um Möðruvallaháls, og fyrir botn dalsins um Tungur og Fell ofan Neðri-Ámárhyrnu vestur um Ámárdalsbotn að Hólsskarði, til Siglufjarðar; nefndist þetta: Botnaleið (75) og milli Efri- og Neðri-Ámárhyrna: Botnaleiðarskarð (76). Inn fyrir botni Ámárdals, sem ofan til er grunnur og þar liggur mjög til suðurs, er fjallshryggur allbrattur en þunnur mjög. Liggur hann vestur frá Efri-Ámárhyrnu og tengir hana þar við háfjöllin innan Siglufjarðardala. Á hrygg þessum eru skörð tvö lítil, mun hið austara torfært, enda nefnt: Afglapaskarð (77). En tíðfarin leið hefir verið um hið vestara, nefnist það: Uxaskarð (78). Mun nafn það frá 14. öld þá flest var hér undir lagt Hólakirkju og til Héðinsfjarðar reknar nautahjarðir stórar; sýnir það ráðsmannsreikningur Hólastóls frá 1387 að það voru þangað reknir 70 gamlir uxar og annar flokkur geldneyta á Lágheiði milli Ólafsfjarðar og Fljóta. Norðan við hrygg þennan innst í dalnum er dæld allbreið nefnd: Uxaskarðslaut (79) og norðan hennar melhólar tveir nefndir: Uxaskarðshólar (80).


Upp frá Ámárbæ, um Ámárbrún og Ámárdal, austan ár hafa vegslóðir verið, allvel hestfærar. Skiptist leið þessi í tvær á mel einum ofarlega á dalnum þar hann grynnist; nefnist melur sá því Vegamótahóll (81). Liggur þá önnur leið þessi beint inn daldragið yfir Botnaleið skammt innar og úr botni dalsins um Uxaskarð til Fljóta og nefnist: Uxaskarðsleið (82), en hin vestur þvert um ána og upp um Hólsskarð til Siglufjarðar og nefnd Hólsskarðsleið (83). Vestan við ána, litlu utar en gegnt Vegamótahól, er hólbunga stór nefnd: Sauðhóll (84). Upp af honum er lág brún nefnd: Neðsta-Alda (85). Ofan hennar er bekkur flatur og vestan hennar melbrún mun hærri, nefnd: Mið-Alda (86). Gengur hér geil allbreið vestur í fjöllin og hún þvert um hana.

Upp á brún þessa er sniðgata allbrött og þar samankomnar Botnaleið og Hólsskarðsleið.

ÁrgerðiVestan Mið-Öldu er og breiður stallur og hvolf nokkurt, en þá hryggur allbrattur er vegsneiðingur liggur yfir, nefndur: Efsta-Alda (87). Er hún allmikið lægri fjöllunum utan hennar og sunnan og nefnist hér því Hólsskarð að lönd Hóls í Siglufirði liggja hér að, að vestan og Hólsdalur kallast austur hluti Siglufjarðardals. Út frá Efstu-Öldu gengur hækkandi melrani, allt upp á hnjúk einn allháan, er samfastur honum að austan annar enn hærri hnjúkur, nefndur: Prestshnjúkur (88). Lifa hér þau munnmæli, að hjá, eða á honum, hafi prestur einhver orðið úti; helst úr Ólafsfirði. Eru þetta aðeins óljósar sagnir en sjá má af Fornbréfum að 1574 ákvað prestafundur Hólastiftis að niður legðist Siglunessprestakall og skyldu prestar frá Ólafsfirði hér þjóna, var það staðfest 1575 en hélst aðeins 7 ár; og má vera að slys hafi því valdið, sem öðrum slíkum breytingum er kirkjuvöld gerðu hér síðar.

Austan í Prestshnjúk er grasflesja fögur nefnd: Fagriblettur (89). Austan hans upp í háfjallinu er og skál mikil nefnd: Beinaskál (90). Er haldið að þar hafi einhverntíma fundist bein, manns eða manna, en næsta óljóst er það sem fleira hér. Neðri brún skálarinnar nefnist Beinaskálarröðull (91) og niður frá honum grösugur bekkur: Beinaskálarstallur (92). Lækur fellur úr skálinni suður í Ámá nefndur: Beinaskálará (93). Allt niður frá henni að dalmynni eru engi góð og hlíðin grösug upp að skálarröðli, nefnist hún og: Beinaskálarhlíð (94). Austan Beinaskálar út frá mynni Ámárdals, er tindur allhár er nefnist Ytri-Hyrna (95). Út frá henni er og skál allstór ofarlega nefnd: Folaldaskál (96) og niður frá henni upp í fjallshlíðinni melhöfðar tveir hvor upp af öðrum nefnist hinn efri: Efri-Stórhóll (97) hinn neðri: Neðri-Stórhóll (98).


Fara efst á síðu