Hvanndalir

Syðri-LandsendiÞað er aðalbýli Hvanndala og þeim því samnefnt. Stóð bærinn niður frá mynni hins ytri og meiri, eða aðaldalsins, mót norðaustri. Er þar útsýn og byggðarstæði hið fegursta. Túnvöllur mikill, sléttur og fagur, en sjávarbakkar hvarvetna háir að neðan. Engi eru nokkur á dalnum og landgæði dalanna orðlögð, en fannlétt er hið neðra, fjörubeit, reki og fiskigöngur mjög við land. En tíð eru hér brim, lendingar tæpar og uppsátur örðugt, upp á hina háu bakka. Ekki mun byggð þessi vera frá fyrstu öldum, þó allgömul og máske reist á 12. eða 13. öld. Hefir hún að mestu í auðn verið 14. 15. og 16. öld, sem fleiri þessar byggðir. Þó máske endurreist fyrir 1600 og hér tíðast búið til 1680. Því næst í eyði nær 130 ár. En oftast er hér búið frá 1807 til 1896. Keypti þá sveitarstjórn jörðina “eingöngu til þess” að leggja hana í auðn. Hafði þó byggð hér – sem oft er lífsnauðsyn hröktum sjómönnum – nýlega bjargað skipshöfn einni. En prestur hér, er þá var oddviti taldi “illt þangað að komast”. Eru og vegir engir yfir fjallahryggi þá er umlykja dali þessa, þó fært sé mönnum og gripum.

 

Á leið niður í SýrdalGengur Hvanndalabjarg flugbratt að sjó innan þeirra, en utan: Hvanndalaskriður (2) einnig brattar, en þó gengnar og einnig neðan þeirra um fjöru. Þá nefnist hér árkvísl aðaldalsins: Hvanndalaá (3). Bakkarnir að austan, allt út að skriðum: Hvanndalabakkar (4). Og utan þeirra en austan aðalskriðanna: Hvanndalaforvaði (5). Hjáleiga er og talin hafa hér verið um stund, skammt inn frá bæ, er helst mun nefnst hafa: Hvanndalakot (6). En upp í dalhvolfi litlu, suður úr aðaldalnum hefur verið: Hvanndalasel (7) og nefnist það Selskál (8). Von er hér annars lítil fornra örnefna svo oft og löngum sem hér hefur auðn verið. Nefnist nú melhæð lítil, þvert um dalmynnið upp frá bæ: Háls (9). Fellur uppspretta þaðan niður hjá bæ, nefnd: Bæjarlækur (10). Þar neðan bakkanna er og vík lítil og lending nefnd: Bæjarvík (11) og út frá henni Bæjarvogar (12). En utar önnur lending nefnd: Stekkjarvík (13). Skammt inn frá bæ, fellur Hvanndalaá áður nefnd; innan hennar og er túnvöllur fagur, framhald þess ytra, nefnist þar nú: Akur. [Akur (13b)] Þar eru tóftir og talið þar hafi verið hjáleigan; aðrir segja þó bæinn hafa þar fyrst verið, en fluttan því enginn gat þar dáið ! Mun hér áður hafa nefnst: Ódáinsakur (14) og munnmæli þessi af því komið. Þar niður af er og vík lítil nefnd: Pálsvík (15). Er sagt hún hafi nafn af ungum pilti er þar hafi drukknað í lending af föður sínum: Hvanndala Árna, sem þjóðsagnir einar hér geta og helst að þjófnaði og klækjum. Hefir hann hér líklega verið á 17. öld og máske síðastur 1670 til 1680. Þar fram frá landi eru flæðisker nokkur allstór, nefnast þau hæstu þeirra: Heybaggar (16).

Skriðnafjall - HvanndalaskriðurInn frá Akri þrýtur skjótt undirlendið og nefnist þar: Syðri-Landsendi (17). Tekur þá við hamrahlíð flugbrött og er það ysti hluti Hvanndalabjargs. Nokkuð innar gengur hinn syðri dalur vestur í fjöllin, er hann mun grynnri og niður frá mynni hans ókleift bjarg hann er og styttri og hömrum girtur, svo þar má búfé geyma sumarlangt, nefnist hann: Sýrdalur (18) en norðan hans, milli dalanna: Sýrdalsfjall (19). Suður í það gengur Selskálin og er milli hennar og Sýrdals þunnur hryggur. Nefnist fjallshlutinn sunnan skálar: Hádegisfjall(20) en upp á fjallinu, vestan skálar: Miðdegishyrna (21). Upp úr Sýrdal að norðan er skarð eitt lítið, nefnt: Sýrdalsgjá (22). Hefir þar áður verið fyrirhleðsla og hlið lokað þá þar var fénaður geymdur, og líklega búsmali milli mála þá sel var í skálinni að norðan. Fram úr Sýrdal fellur Sýrdalslækur (23). Og hóll er einn í dalnum neðarlega, nefndur: Moshóll (24). Niður frá Sýrdal eru berghleinar og skerjahryggir lítið frá landi, en ofan þeirra djúpir vogar, nefndir: Sýrdalsvogar (25). Þar er lending góð þá brimlaust er og leita sjómenn hér oft hvíldar frá lóðum sínum því örskammt er þar til miða. Varð hér slys mikið 1783 af snöggri brimólgu; fórust skip 3 eða 4 frá vesturströnd Eyjafjarðar og menn allir, utan fá ungmenni er svo við lá að yrðu hér hungurdauð.

Hvanndalir úr lofti

Fláandi

 

 

 

 

 

 

 

 

Nokkuð innar er flæðisker eitt skammt frá landi, nefnt: Þrætusker (26). Er það undan Hvanndalabjargi þar það er hæst og eru þar takmörk heimalanda og hreppa. Vestur frá botni aðaldalsins er nokkuð veit þar til suðurs eru vik tvö eða daldrög lítil, nefnist hið syðra Austurvik (27) hið nyrðra: Vesturvik (28) er um það gengið vestur á fjallið Víkurbyrðu til Héðinsfjarðar, og sú leið helst fær gripum, þó allbrött sé, og torfæru minnst að öðru. Út frá Stekkjarvík áðurnefndri er: Móafjara (29). Þá næst utar eru flæðisker mörg og vogar nokkrir, nefndir: Þórhildarvogar (30). Meðal þeirra og ofan er og vík nokkur, nefnd: Vogavík (31). Sveigir nú ströndin vestur og síðan suðvestur til Héðinsfjarðar. Verður undirlendi mjótt, er mót norðri kemur og nefnist það vestast: Ytri-Landsendi (32). Niður frá honum vestur frá vogunum er: Landsendavík (33). En vestan hennar er Hvanndalaforvaði, er áður getur. Upp frá Landsendanum, norðan í enda fjallsins, er dæl nokkur, mjög hallandi, grunn og flá, nefnist hún: Fláandi (34) og gil allmikið niður frá henni: Fláandagil (35). Er það austan Hvanndalaforvaða en vestan hans lítið, vestast í bökkunum eru gildrög tvö lítil; nefnist hið eystra: Strandmannagjá (36) en hið vestara: Fjárgjá (37) mun hún sauðfé tömust uppganga; en báðar eru einstigi upp á hina háu bakka. Við hina eystri gjá, fórst farmskipið Hertha haustið 1888 komust skipverjar upp í klauf þessa, er síðan hefir nafn af þeim; var þeim þaðan bjargað heim til Hvanndala, af búendum þar, er voru að gæta fjár síns.

Ytri-Landsendi Hvanndalir frá sjó

 

 

 

 

 

 

Vestur frá Fláanda er hlíð hins bratta fjalls á allmiklum kafla, skriður einar, all brattar; en bakkar einnig háir neðan þeirra, sem brim oft sverfa; liggja skriður þessar mót norðvestri og nefnast, sem áður getur: Hvanndalaskriður. En endi fjallsins allur: Skriðnafjall (38). Er það að vestan, frá skilið að nokkru, hinum háfjöllunum af dal er þar gengur austur í fjallið. Austast í Hvanndalaskriðum, gengur hryggur nokkur niður, nefndur Skriðuhryggur (39). Vestur frá honum nefnist Brattivangi (40). Niður skriðurnar, nær miðju, gengur og annar hryggur, nefndur: Hálfnaðarhryggur (41). Niður frá honum, þó heldur austar, er forvaði allmikill, nefndur: Skvampandi (42). Nokkuð austar er annar, nefndur: Klapparforvaði (43). Eru þeir báðir mjög til farartálma ef brim er nokkurt, eða hásævi og hér þá ófært. Um Hálfnaðarhrygg og Skvampanda teljast nú vesturtakmörk Hvanndalalanda.

Hrísey, Múlinn og Bjargið


 Fara efst á síðu