Engidalur

MinnisvarðiSá bær hefur austastur verið hinna fornu byggða Úlfsdala og hin eina byggð austari og minni dalsins, sem algjört er fráskilinn honum, af háum fjallarmi er gengur að sjó út. Er hann stuttur og fremur hrjóstrugur efra en fyrir mynni hans undirlendi og engi góð. Hefur hann þegar að fornu nefnst: Engidalur (2) og bærinn síðan. Stóð hann neðan við mynni hans og þó fremur hátt. Er þar víðsýnt til hafs og byggðarstæði og umhverfi fagurt. Hefur tún hér verið mjög stórt á fyrri öldum, grösugt, þurrt og jafnlent allt á sjávarbakka ofan sem hér eru hvarvetna háir og túnefni ágætt. Er ofan þess og vestan mikill forn garður en með austurjaðri þess fellur Engidalsá (3). Haglönd eru hér góð, en útiganga og fjörubeit því meiri; rekar miklir og mjög hægt til fiskifanga. En brim eru tíð og lending viðsjál, liggja lönd þessi mót norðri og yst við haf út.
Löngum hefir þetta fagra býli í auðn verið á síðari öldum, einkum 14. 15. og 16. öld, einnig fyrri hlut síðustu aldar og nú um sinn. Féll snjóflóð á bæinn 12. apr.1919, braut hann og létust þar 7 menn, var þó slík hætta hér aldrei áður kunn. Hann var þá byggður nokkuð neðar en fór brátt í auðn og brann síðan. Loks hefir nú viti verið reistur austast á undirlendi þessu og bær þar nærri svo byggt er nú landið þó í auðn sé hin forna byggð. Margt mun hér verið hafa örnefna, en flest mun glatað, það fornt var og merkast, fyrir hina löngu auðn og mun svo um öll býli Úlfsdala. Jafnvel hin forn-kunna: Dalatá (4) er nú ókunn og að mestu gleymd, mun hún þar vera er um síðir nefndist Lambanes en loks Sauðanes. Er því „Sauðanesviti“ er þar stendur rétt nefndur: Dalatáarviti (5).

SauðanesNokkur eru hér nöfn komin frá byggðinni og dalnum; nefnist vestur frá Dalatá til merkja: Engidalsbakkar (6) en inn frá Dalatá, vestan við mynni Siglufjarðar: Engidalsströnd (7). Upp í dalnum eru hólar margir austan ár nefndir: Engidalshólar (8). Suður úr dalnum austast: Engidalsskarð (9) en suðvestur úr honum: Engidalsvik (10). Þá nefnist og lendingin niður frá túni: Engidalsbás (11). Austur á árbakkanum, skammt neðan bæjar hafa fjárhús verið og þar nokkuð neðar hesthús, nefndist þar Hesthúsgerði (12) var eftir snjóflóðið reist þar íbúðarhús, er síðar brann. Suður frá bæ er slétt eyrarrönd nefnd Kvíatunga (13). Nokkuð vestur frá bæ er mjög gömul tóftarúst - líklega sú er Jarðabók 1709 ætlar máske gamla hjáleigu - nefnd: Miðaftanstóft (14). Vestan hennar er slétt lautardrag, nefnt: Undirvöllur (15) mun það farvegur Engidalsár er í ómunatíð hefir fallið vestur fyrir ofan bæjarstæðið, er framhald hans breið grösug lág allt norðvestur að sjó, vestan vallarins, nefnd: Starlág (16). Allur neðri hluti hins mikla forna túns er nú lágþýfður grasmór, er í órækt hefir verið hinar síðari aldir, nefnist austur hluti hans: Sólskinskjálki (17) en vestur hlutinn: Illviðrakjálki (18). Niður af honum er: Hjallsnes (19) en austan við það Engidalsbás áðurnefndur. Frá Hjallsnesi að Dalatá nefnast Árfjörur (20) en bakkahornin við ána, tveim megin: Árnef (21). Fram frá því vestara er blindsker eitt nefnt: Ársker (22) en vestur frá því þrjú blindsker lítil, nefnd: Þyrsklingar (23). Vestan í Hjallsnesi er laut ein er bannblettur hefur talist og önnur ofarlega í Starlág, er hann umhverfis þúfu eina með vallhumalsgróðri miklum er nefnist: Vallhumalsþúfa (24). Vestan við Starlág er melur nefndur: Starlágarholt (25). Vestan við hann vík lítil nefnd: Fagravík (26) og vestan við hana melhryggur mjór fram að sjó: Fögruvíkurhryggur (27). Suður frá Starlágarholti er Gamlistekkur (28) en stekkur var síðast heima á túni og hefir svo verið hér víða á síðustu tíðum. Nokkuð vestur frá bæ, sunnan vegslóða er þaðan liggja til vestari dalsins, er mikill stakur steinn, nefndur: Grá-steinn (29) er hann mið á Árskeri.

SauðanesvitiUm 189_. var hjábýli reist austan Engidalsár af Gunnlaugi Þorfinnssyni, nefnt: Gunnlaugsbær (30) stóð það aðeins til 19__ . Þar austur frá er smáþýft engi mjög grænt og gróðursælt; nefnt: Ódáinsakur (31). Austan hans er melur, nefndur: Torfholt (32). Þar skammt austar er skriða, bunga mikil og forn út frá hinum háa og bratta fjallsenda, gengur hún allt út á Dalatá og nefnist Leiti (33), var hún öll vallgróin uns nýlega féll þar enn skriða, en brotið hefir hafrót mjög austan af henni og nesinu. Rétt suðaustan við nesið er gildrag, nú nær horfið, nefnt: Lamba-gil (34) mun það nafn frá þeirri tíð er hér nefndist Lambanes, en því var Dalatá síðast nefnd Sauðanes, að hús voru hér fyrir útigöngusauði og sjást rústir þær þar sem nú er vitinn og aðrar nýrri ofar. Næst suð-austan við Dalatá er Breiðavík (35). Utarlega í henni er berghlein há og þunn, nefnd: Brýnisberg (36) bergið auð-klofið í brýni. Nokkuð innar í víkinni nefnist: Olnbogi (37) inn og fram frá honum: Olnbogasker (38) og inn frá þeim stakt blindsker nefnt: Prestsflúð (39), eru munnmæli að þar hafi prestur farist. Þar upp af er Miðstrandargil (40) og nokkuð innar Landsendagil (41). Skammt innar þrýtur Engidalsströnd við hið mikla berg og nefnist þar: Landsendi (42). Fram frá honum er berghryggur fram í sjó nefndur Mávabrík (43). Bæði út og inn frá henni eru smávogar nokkrir, nefnast innan hennar: Syðrivogar (44) en utan: Ytrivogar (45) og helstir þeirra Pálsvogur (46) og Rekabás (47) næstur henni, en að innan næstur: Djúpivogur (48). Teljast þar nú merki samkvæmt ráðum Hvanneyrarpresta, eru Syðrivogar því mest innan þeirra nú, en voru áður meir utan þeirra. Fram frá vogum þessum er skerjaklasi er nefnist: Djúpavogssker (49). Innan við Djúpavog er drangur all hár fram frá landi, nefndur: Skarfadrangur eða Kerling (50) því Karl er þar skammt innar, sem getið er. Milli þeirra og skammt innar er klettabrík fram í sjó nefnd Ytriforvaði (51), er hann aðeins norðan við Ytrifesti hin áður nefndu fornu merki.

DalasetiUpp á norðurenda fjalls þess er útgengur milli Siglufjarðar og Engidals, eru bergstrýtur margar, munu það helst Strákar þeir vera eða Strókar (52) sem hér eru títt nefndir, þótt fjarri sé því að menn viti hvar það nafn á heima, en nefna helst svo austurhlið fjallsins. Blasa þó strýtur þessar mjög við, þá sjóleið er farin fyrir Dalatá sem einnig er flestum týnd. Má ætla að nafn þetta og svo fjallsins Stráka eða Strókafjall (53), sem eins líklegt er að það hafi kallast - sé af sjófarendum gefin. Nefnist og norðaustasti tindur þess Strákahyrna (54). En svo er hér þekking komið að upp á Strákahyrnu þykjast ungir Siglfirðingar fara, ef upp á Hvanneyrarhyrnu komast. Milli þeirra liggur þá allur háhryggur fjallsins, og á honum nær miðju þriðji og mesti há-tindur þess nefndur: Skrámuhyrna (55) en austur frá henni er Selskálarhyrna áðurnefnd. Vestur frá Skrámuhyrnu, neðarlega í austurhlíð Engidals er og Skrámuhellir (56) og upp frá honum: Skrámuhellisbrúnir (57). Þá nefnist norðvestasta hyrna fjallsins: Dagmálahyrna (58) og nokkuð niður frá henni að norðan: Hak (59).

Sauðanes - EngidalurYst í Engidal, austan ár, er melhryggur þvert frá enda fjallsins, að ánni, nefndur Langhóll (60), er hann ystur Engidalshóla. Innan hans neðst er Langhólslaut (61) er það hér hinn þriðji bannblettur talinn. Næst innan Langhóls er: Stórhóll (62) og inn frá honum Dalstjörn (63) en niður frá henni og fremst við ána Bratthóll (64). Austan hóla þessara í rótum fjallsins eru lautir þrjár, nefndar: Hrútaskálar (65). Þar inn frá er hólaklasi nokkur samfelldur nefndir Grenhólar (66) er Skrámuhellir í hlíðinni upp frá þeim. Innstur af Engidalshólum er: Skarðshóll (67) upp frá honum er gengið til Engidalsskarðs og tíðast farið um gildrag er: Göngugjá (68) nefnist; en litlu vestar er Imbugjá (69). Vestan Engidalsskarðs, fyrir botni dalsins, er: Hádegisfjall (70) og á því lítill hnjúkur: Hádegishnjúkur (71). Þá nefnist fjall það vestan Engidals, er Úlfsdali skilur: Dalaseti (72). Austur úr honum, allt að ánni, gengur skriðumelur brattur, er nefnist: Klif (73). Austan í fjallinu ofarlega og nær yst er dæl ein, nefnd: Dokk (74) og niður frá henni allmikil skriða, breið að neðan og nefnd: Þríhyrna (75) en upp á norðaustur horni Setans er tindur nefndur: Miðdegishyrna (76). Fyrir norðurenda Setans er undirlendi lítið og minnst fyrir miðju hans, en bakkar þar mjög háir, af veðri og brimi sorfnir. Gegnum þá þar sem mjóstir eru er skriðugil mjög djúpt að neðan, er all torfært gjörir milli byggða þessara mun það nefnst hafa Hergunnargil (77) þó nú kallist Herkonugil [77b]. Hafa menn hér og talið það eitt af heimkynnum hinna skæðu vætta, stóð ótti svo mikill af þessum stað til síðustu tíma að næst gekk Siglufjarðarskarði. Tveim megin gilsins nefnast: Gilsfjörur (78) austur að Fögruvík. En fram frá þeim austan gilsins, eru sker tvö: Karl (79) og: Kerling (80) er hann vestar og var hár drangur, en nú fallinn, en hún austar, lægri og nær fjöru.

GjárÁrfjörur

 

BreiðavíkSauðanesviti

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 
 


 Fara efst á síðu