Inngangur

Allt til þess, að sú breyting varð á vesturtakmörkum hins forna Vaðlaþings 1826 að til þess lagðist byggðin Úlfsdalir, er áður fylgdi Hegranesþingi, voru takmörk þess: að vestan Úlfsdalafjöll: að austan Vargá. Nefndust héruð þessi síðar Eyjafjarðarsýsla (1). Sú þinghá er vestast lá af þessum héröðum, nefndist: Siglunesþing (2) en síðar: Sigluneshreppur. Réði þar nafni, sem annarstaðar, þingstaðurinn sem frá öndverðu mun hafa verið á Siglunesi. Sú varð þó breyting á síðustu öldum, eða nálægt 1700, að hann fluttist að Hvanneyri í Siglufirði; nefndust þá byggðir þessar: Siglufjarðarhreppur nokkra hríð á 18. öld; en loks, eftir lok hennar: Hvanneyrarhreppur.

Kort af svæðinu

Ekki er þetta mikil sveit að byggðum né býla tölu, enda mikill hluti hennar fjallahryggir allháir, sem hvarvetna á útkjálka þessum, ganga fram til ystu nesja, svo víða eru hamrar og skriður í sæ ofan. Eru hin eystri takmörk: hið mikla Hvanndalabjarg (3) út frá Ólafsfirði en hin vestari voru: áðurnefnd Úlfsdalafjöll (4). Skildi þar einnig hamrahlíð sæbrött. En austan við hana gengur: Siglufjörður (5) inn í hálendi þetta og skammt austar: Héðinsfjörður (6). Báðir eru þeir stuttir, en inn frá þeim dalir grösugir og hafa í þeim verið helstu byggðahverfin; en hið þriðja, yst á nesi því er fram gengur milli fjarðanna, því nokkuð er þar undirlendi og dalur einnig inn í fjöllin. Hefir þar því þegar í fyrstu orðið miðstöð og þingstaður byggðanna.

Norðaustan í fjallskaga þann, er fram gengur austan Héðinsfjarðar, ganga og dalir tveir, fremur litlir, er nefnst hafa: Hvanndalir (7) eða Fanndalir, hefir þar verið hin fjórða og minnsta byggð hreppsins og mjög einangruð; sem hinar eru og allar nokkuð. Hér mun hafa verið síðast byggt enda á takmörkum tveggja landnáma og sameign til nytja á fyrstu tímum, samkvæmt fornri sætt; þó um síðir hafi til Siglunesþinga talist. Lögbýli hefir hér aðeins eitt verið og hjáleiga ein, að sögn nokkra stund.

Verður hér fyrst yfir þessa byggð litið, því fyrst er hún í hinni gömlu boðleið og þannig áfram haldið. Verða örnefnin þannig skráð, að hverju hinna fornu býla verða örnefni talin svo vítt sem ætla má að lönd þess hafi náð; en þeirra breytinga getið, sem kunnugt er, og sjá má að síðar hefir orðið á býla skipun og skipting landa. Má og víst telja, að öll hafi hin augljósu fornbýli verið lögbýli hinar fyrstu aldir, þótt nú séu ýms þeirra í eyði, og fyrir löngu hafi sum þeirra undir önnur býli lagst, þeim sameinast að fullu og jafnvel gleymst. Sömu skil verða og gjörð nokkrum öðrum býlum sem ekki munu frá fornöld vera, en þó svo snemma byggð, að samtíða hafi þau verið að nokkru hinum fornu eyðibýlum og lögbýli langa eða alla tíð. Verður þannig best yfirlit fengið yfir býlaskipan hér hvarvetna, hinar fyrri aldir; en þá hefir búnaður hér mestur verið, sem mannvirki mörg og fleira sýnir, og byggðir þessar þá fullsetnar, en aldrei síðan, þótt hér hafi byggð drjúgum aukist á 17 öld, um sinn, og aftur hinni 19. allmikið, og svo haldist um tíma. Svo hafa þó sumar byggðir þessar oft og lengi í auðn verið, ýmist að nokkru eða öllu, að mjög hefir þar breyst skipting landa á ýmsa vegu. Verður því þar sem heimildir skortir, helst af staðháttum og líkum ráðið, hver verið hefir hin forna skipting þeirra. Er þessu einna verst farið í Héðinsfirði, auk þess sem öll hin fornu býli í nálægð Sigluness, hafa undir það lögð verið þá þar var prestaríki. En þótt hér hafi mörg býli í auðn farið að síðustu, fyrir áhrif Siglufjarðarkaupstaðar og nokkur þeirra undir hann lagst, Hvanneyrarprestar hafi landsneiðum náð frá grönnum sínum og eina jörð Hólastóls gert að hjáleigu sinni, án heimilda - auk byggða Hvanndala, sem fjarlægar þóttu til prestverka og ákvarðað var að eyða 1896 þá mest hafði prestur hér sveitarráð – er sá athafnaferill enn að mestu auðrakinn.

Loks verða hér á sama hátt skráð örnefni í dölum þeim tveimur, vestan Siglufjarðar, er nefnast: Úlfsdalir (8) og til hreppsins lögðust 1827. Liggja næst þeim að vestan hinir fornu Almenningar (9) og skilur þar fjallarmur og Dalaskriður (10) sæbrattar að utan. Munu um þær hin réttu sýslumörk þó landabréf sýni þau um miðja Almenninga. Er það, ásamt fleiri ótrúlegum villum, ljóst dæmi þess hvað hér er torsótt að fá ábyggilegar upplýsingar.


Fara efst á síðu