Dalabær

DalabærÞað býli má ætla að fyrr hafi verið hið helsta og kunnasta af býlum Úlfsdala, og vafalítið bústaður Úlfs kappa, er hér nam fyrst lönd. Stendur bærinn nær yst í vestari og meiri dalnum, austan ár, undir vesturhlíð Dalaseta. Hefir tún þar verið allmikið, þótt hvergi hafi við jafnast hið fagra túnefni Engidals. En samgirðing er hér forn, afarstór um tún tveggja býla, hitt þó vestan ár, er girðing þessi um dalinn þveran, innan túnanna og út til sjávar, tveim megin. Eru engi mikil innan hennar, einkum austan ár. Engjalönd eru hér allgóð, allt innan um dal, og haglönd ágæt, reki góður, heimræði hægt og lending hér hin skásta á Dölum. Lengst mun hér hafa byggð haldist þá í auðn lágu hin býlin öll á 14. og 15. öld, þó stundum væri þá alauðn, sem og varð að fullu eftir síðari pláguna 1495 og langt hélst fram á 16. öld. Munu lönd hinna býlanna hafa undir þetta býli legið þá það eitt stóð, nefndist það þá jafnan „Úlfsdalir“ eða „Dalir“ í skjölum Hólastóls er öll átti lönd þessi, en aldrei Dalabær, uns aftur hófst hér byggð, á 16. öld, og upp komu nöfn hinna býlanna. Má ætla að öll hafi geymst hin fornu nöfn, og því hafi nafnið: Bær tengst við Dalanafnið, að í fyrstu hafi býli þetta aðeins: Bær heitið, er það og líkara nafnagjöfum hinna fornu landnema, því flest voru nöfn býla þeirra stutt og fábreytt.
Við Dalabæ er hér og ekkert örnefni kennt, jafnvel lending og búðir þessa bæjar, nefnast: Dalavogur (2) og: Dalabúðir (3) ætla ég að þau nöfn hafi lengi haldist. En búið hefir nú hér verið nær óslitið, hálfa fjórðu öld. Hér hefir vafalaust verið hof Dalabúa í fornum sið, er hér og hóll einn í túni suðvestur frá bæ er nefnst mun hafa Goðhóll (4) en nefnist nú Goða! voru fornar tóftir þar nýlega niðurbrotnar. Hér var og bænhús á 17. öld og vafalaust grafreitur, mun svo hafa jafnan verið á síðari öldum þá hér var byggð nokkur. Stóð það enn 1709 og var notað nokkuð lengur; engar sjást hér þó leifar þess né menjar; en hóll er hér lítill, ofan bæjar, nefndur: Bænhúshóll (5) og er þar hlaða. Allt ofan hans er túnið nær sléttur halli, forn gróin skriða, nefnd: Sléttivöllur (6). Út frá bæ nefnist og: Tveggjadagavöllur (7) en út og niður frá bæ: Dagslátta (8). Sunnan bæjar fellur Bæjarlækur (9) en sunnan hans er Skemmugerði (10) og neðan þess Rafnsdý (11), hafa menn hér því trúað, að í því hafi Dala Rafn, er drukknaði 1636 og áður getur, fólgið fé.

Dalabær - yfirlitNokkuð suður og upp í túni er og hólbali lítill, með gömlum tóftum, nefndur: Kötlugerði (12). Suður og niður frá Goðhól er stakur lágur melhóll, nú gróinn, með tóftum nokkrum, nefndur: Skráphóll (13), hefir þar áður verið hákarlsroð þurrkað til skæða. Neðan hans við ána er melur allstór vallgróinn, með tóftum mörgum, hafa þar fjárhús verið ofl. máske húsmannsbýli, nefnast þar: Gerði (14) og sunnan þeirra við ána Gerðahvammar (15). Neðan aðaltúnsins eru engi mikil og samfelld út og suður, nefnast þau, inn frá Skráphól og Goðhól: Suðurmýrar (16) niður frá túni og Bæjarlæk: Fit (17) milli hlutinn: Útmýrar (18). Í engjahjalla þessum, út og niður frá bæ, er hávaði lítill með hesthústóft, nefnist þar: Hesthúsgerði (19) nokkuð neðar er annar lítill hávaði, einnig með hesthústóftum, nefndur: Litlagerði (20) en neðan þess við ána: Hesthúshvammur (21).

Austan við árósinn eru sjávarbakkar háir sem hér hvarvetna og þar túnefni gott, nefnist þar vestast Lambhagi (22) enda forn garður um hann sunnan og austan, eru á honum tóftir 5-7 gamlar, virðast þar hafa fjárhús verið, og máske sjóbúðir. Austan við Lambhagann er vík lítil nefnd: Brynjólfsvík (23). Austan við hana er fjárhús eitt á bökkunum nefnt: Miðhús (24) og um það túnreitur nokkur: Miðhúsgerði (25), norðaustan við það vogur lítill: Miðhúsbás (26) en fram frá því klettur skammt frá landi: Miðhúsdrangur (27). Virðist því hafi hér Miðhús nefnst, að þá hafi fjárhús verið á Lambhaga er það byggðist. Nokkuð austar á bökkunum eru tóftir nokkrar og undir þeim byggðarúst mikil og há, hefir þar nefnst lengi: Vörðhús (28) af hverju sem það nafn er komið, út frá því vogur lítill: Vörðhúsbás (29) en fram þaðan all djúpt blindsker, nefnt: Vörðhúsboði (30) er bærinn og Vörðhúsið mið á honum. Nú nefnast hér tóftir þessar: Stekkur því stekkur var hér síðast um hríð, en miðið sannar hið gamla nafn. Nokkuð norðaustar á bökkunum, þar sem út lá hinn forni garður til sjávar er fjárhús eitt nefnt: Stórhús (31) og túnreitur niður frá því Stórhúsgerði (32) vestur og fram frá því er: Stórhússker (33) og fram frá því blindsker nefnt: Stórhúsboði (34). Út frá Stórhúsi og enda hins forna garðs, er og túnreitur nokkur, þó forn túnauki, og um hann forn garður, sem út hefir einnig verið færður að austan. Gengur ströndin hér út um sinn, með bergtöngum nokkrum, en vestan þeirra eru flæðisker og hafa þar áður verið selalátur og túnreitur þessi því nefnst Látragerði (35), bergtangi mjór út frá því: Látrahryggur (36) vogur lítill austan hans: Látrabás (37) og fjárhús það er á reitnum stóð nýlega Látrahús (38). Allt frá Vörðhúsi að Látrahúsi eru brúnir og brekkur hinna háu sjávarbakka víða mjög grösugar, en aldrei slegnar né þar við nokkru þorað að hreyfa, því allt telst hér svæði þetta vættum helgað og mönnum óheimilt; en slys og óhöpp vís ef út af ber, sem hér víðar.

Dalaland og LækirNæst austur frá Látrahrygg ganga tveir aðrir berghryggir, mun lengra fram; nefnist hinn eystri: Bolahryggur (39) hinn vestari: Syðrihryggur (40) er milli þeirra vogskora þröng og djúp og löng, nefnd: Tófugjá (41). Austan við Bolahrygg er hinn áður nefndi: Dalavogur sem aðal-lending hefir hér verið síðustu aldir; nefna hann hér innfæddir menn allir - þó ótrúlegt sé - Dalavogu og mun einsdæmi að slíkri hefð nái jafn augljóst bögumæli. Vestan hans fram frá Bolahrygg, er berghöfði, frá skilinn aðalhryggnum, nefndur: Vogudrangur (42) en hlið það er þá skilur: Músarsund (43) fram frá drangnum er og blindsker, nefnt: Drangsboði (44). Fram í Dalavog miðjum sem er allbreiður er grunnboðarimi nefndur: Vogasker (45) skipta þau vognum í tvo hluti ásamt blindskeri sem fram frá þeim er, nefnt: Illiboði (46). Austan við voginn gengur fram flúðatangi nokkur og er beint fram frá honum í sömu stefnu löng flæðiskerjahlein, nefnd: Löngusker (47) en tanginn efra, Lönguskerjahryggur (48). Austur þaðan nefnist og fjaran: Langamöl (49). Upp frá Dalavog og allt austur frá Bolahrygg til merkja eru melbakkar mjög háir og brattir gengur sjór að þeim þá brim eru og varð skip að draga á festum all hátt upp eftir þeim jafnan haust og vetur, þá hér var sjór sóttur, sem nú er aldrei; en á það minna tóftir búða og hjalla hér á bakkanum (Dalabúðir) nefnist næst vestasta búðartóftin: Þorvaldsbúð (50) átti hana Þorvaldur ríki Sigfússon sem hér bjó lengi á síðustu öld og mest gerði, ásamt sonum sínum byggð þessa kunna. Upp frá búðunum er flatur melur er nefnist: Vogholt (51). Nokkuð austar á bökkunum eru tóftir gamlar, hefir síðast verið þar hús fyrir útigöngusauði og nefnist því: Geldsauðatóft (52). Nokkuð austar er klettabrík framundan bökkunum og skúti lítill nefnist þar Strútur (53) þar skammt fram frá landi er og berghólmi lítill, nefndur: Veiðibjölludrangur (54). Er skammt héðan austur að Hergunnargili áðurnefndu, er skilur löndin.

DalavogaNorðan í enda Setans vestan merkja eru: Hrafnabjörg (55) og niður frá þeim: Hrafnaskriða (56) við austurjaðar hennar var nýlega byggð skilarétt Dalabúa, nefnd: Dalarétt (57) en stóð þar skammt og er nú vestar á bökkunum, af timbri gjörð, en grjóti áður. Vestan í Setanum er stallur nokkur allt inn fyrir ofan bæ, nefndur: Lágiseti (58). Niður frá honum er skriðubunga ein forn og gróin er allt gengur út að Vogholti, nefnd: Ytrihæð (59) og önnur slík skammt út frá bæ nefnd: Syðrihæð (60). Upp hlið Lágaseta, suður og upp frá bæ, er lautardrag lítið eitt, nefnt: Uppganga (61) en syðst vestan í honum lyngbrekka, nefnd: Berjamór (62). Sunnan við enda Lágaseta, suðaustur frá bæ er: Dagmálagil (63) suður frá því, efst, nefnast: Dagmálabrúnir (64) en neðar Dagmálakinn (65) og niður frá því, inn frá Suðurmýrum áðurnefndum: Dagmálamýrar (66). Nokkuð suður frá Dagmálagili gengur melkambur mikill um þvera hlíðina, allt á láglendi ofan og upp um Dagmálabrúnir og myndar þar hæð nokkra, nefnist melur þessi: Háaklif (67). Niður og út frá enda hans, neðan hlíðar, eru grundir sléttar og nær syðst og efst á þeim, neðan við enda klifsins, lítill stakur hóll, er nefnist: Úlfshaugur (68) hafa menn hér því trúað að hóll þessi sé haugur Úlfs Kappa þó mikil fjarstæða sé, því melhóll er þetta grýttur og sem sjá má, af náttúru en ekki mönnum gjörður. Út frá hólnum nefnist og Úlfsgrund (69) og niður frá henni, að ánni: Úlfsengi (70). Má það víst telja að þar suður lengra, hafi lönd Dalabæjar ekki náð á fyrri öldum, og hafi hinn stóri melhryggur Háaklifið, og máske Úlfshaugur, verið suður takmörk þess.

ÚlfshaugurDalavoga

 

 

 

 

 

 

 

 


 

Fara efst á síðu