Um gerð síðunnar

Örnefnasafn Helga

Í örnefnasafni Helga Guðmundssonar, sem varðveitt er í handriti í Bókasafni Siglufjarðar, er fólginn mikill fróðleikur, sem nú verður gerður aðgengilegur fyrir almenning í fyrsta sinn með birtingu á veraldarvefnum. Aðgangur að handritunum hefur ekki verið takmarkaður á sjálfu safninu, en fáir hafa vitað um tilvist þeirra. Nokkrir sem vinnu sinnar vegna þurftu að sækja sér upplýsingar þangað hafa notfært sér þann fróðleik sem þarna er að finna. Þó hefur það gerst að eitthvað af frumritunum hefur glatast eða lent á glámbekk, en hafa þó bjargast í ljósritum eða afritum nema eitt sem ekki er finnanlegt, en það er lýsing á jörðinni Skútu í Siglufirði. Af umfjöllun í öðrum skrám má þó ráða, að Helgi hefur skráð örnefnin á þessari jörð, þó hvorki hafi tekist að finna frumrit eða ljósrit af verkinu þrátt fyrir talsverða eftirgrennslun. Af þeim sökum höfum við ákveðið að birta aðeins nokkrar myndir frá jörðinni, en forðast að semja einhvern texta, sem vafalaust yrði ófullkomið stílbrot, sem ekki færi vel á að birta innan um lýsingar Helga á öðrum jörðum í Siglufirði.

Síða úr einu af handritum Helga

Við undirbúning að þessari vefútgáfu var ákveðið að víkja sem minnst frá upprunalegum texta Helga, þannig að orðalag hans héldist óbreytt, en stafsetningu færðum við nær nútíma og greinarmerkjum höfum við breytt lítillega. Verk sitt hefur Helgi á því að númera örnefnin í samfelldri röð frá Inngangi og Hvanndölum að bænum Grund í Héðinsfirði og ná þau frá (1)-(193). Á næsta bæ, Möðruvöllum, hverfur hann frá þeim hætti og upp frá því hefjast númerin á 1 á hverjum bæ og verður því ekki séð hvort þarna vantar frekari umfjöllun um bæinn Grundarkot, sem var enn í ábúð á þeim tíma, sem Helgi skráði örnefnin, en ótrúlega fá örnefni (alls 5) eru skráð á jörðinni Grund (Grundarkoti). Til samræmingar höfum við breytt númeraröðinni á þeim jörðum, þar sem röðin var áður samfelld.

Hjá Örnefnastofnun fengum við skrána um jörðina Skarðdal í Siglufirði og var þá búið að skrá hana á stafrænt form, leiðrétta stafsetningu og athugasemdir, sem skotið er inn í meginmálið má því rekja þangað.

Sá háttur Helga, að velja gömul og stundum óljós gögn um skiptingu jarðanna sem hann fjallar um, gerir ef til vill einhverjum erfitt fyrir að átta sig á aðstæðum, en það verður strax auðveldara ef menn hafa t.d. í huga að jarðirnar, sem Helgi aðgreinir í Vík og Héðinsfjörð, nefnast í einu lagi Vík í dag. Villuna í þessu hjá Helga má að öllum líkindum rekja til þess að í gömlum bókum Hólastóls er getið um „jörðina Héðinsfjörð“ og er þar sennilegast átt við fjörðinn sem heild en ekki einstaka jörð sem borið hafi þetta nafn. Jörðin Leyningur hefur verið nafngreint kot og síðar lögbýli frá síðasta fjórðungi fimmtándu aldar, en Helgi hverfur lengra aftur og kýs að kalla jarðirnar Hlíð og Nes, þrátt fyrir að á jörðunum er ekki að finna örnefni sem dregin eru af þessum heitum, en allnokkur sem dregin eru af Leyningsnafninu. Eins er um jarðinar, sem Helgi nefnir Minni-Höfn, Meiri-Höfn og Búð, þær hafa um langa hríð borið sameiginlega heitið Höfn.

Í textanum á vefsíðunum eru örnefnin feitletruð og númeruð innan sviga, en í prentvænu hlutunum eru þau undirstrikuð og skáletruð og dregin saman í stafrófsröð í lok hvers kafla. Í nokkrum tilvikum eru örnefni, sem ekki er að finna í texta Helga, skráð inn á myndir sem fylgja textunum. Það hefur þó ekki verið gert, nema traustar upplýsingar sé að finna í öðrum heimildum um þau nöfn.

Öllum er heimilt að prenta út þann fróðleik, sem á honum er að finna og til þess að auðvelda það, hefur efni handritanna verið samsett í prentvæna útgáfu ásamt flestum þeim myndum, sem fylgja textanum. Þar sem prentarar henta misvel til að prenta myndir, þá er einnig til staðar prentvænt eintak án mynda. Þannig er mögulegt að að prenta sérstaklega lýsingu þeirra jarða, sem þykja áhugaverðar hjá hverjum og einum eða safna verkinu saman í heild.

Örnefnafélagið Snókur

Árið 2003 hófu þrír áhugamenn að kynna sér örnefnahandrit Helga Guðmundssonar, ættfræðings, sem varðveitt eru í Bókasafni Siglufjarðar. Í handritunum er að finna skipulega skráð örnefni á ysta hluta Tröllaskaga, frá Hvanndölum til Úlfsdala. Brot af þessum fróðleik lifir enn meðal almennings en er þó óðum að týnast. Er því full ástæða til að varðveita hann og gera aðgengilegan áhugasömum heimamönnum og ferðalöngum. Hafist var handa við söfnun ljósmynda og korta og endurritun textans á tölvutækt form. Þá var glímt við staðsetningu örnefna á landakortum og ljósmyndum. Rætt var við ýmsa staðkunnuga einstaklinga í þessu skyni.

Snókar á Snók

Á vordögum 2007 var örnefnafélagið Snókur stofnað í þeim tilgangi að birta örnefnaskrá Helga. Fallið var frá hugmynd um útgáfu bókar en þess í stað ákveðið að setja upp heimasíðu með texta Helga auk ljósmynda og korta sem örnefni hafa verið færð inn á. Karl, sonur Helga, lýsti ánægju með áform félagsins um þessa birtingu á verki föður síns. Frumkvöðlar og hugmyndasmiðir í örnefnafélaginu Snóki eru Hannes P. Baldvinsson, sem hefur unnið nær alla tölvuvinnu, svo og þeir Páll Helgason og Örlygur Kristfinnsson. Fjölmargir aðrir sem leitað hefur verið til eftir aðstoð og stuðningi hafa lagt sitt af mörkum til þess að hugmyndin yrði að veruleika. Magnús Sveinn Jónsson, margmiðlunarfræðingur, hannaði útlit síðunnar og sá um alla tæknilega þætti. Færir félagið honum bestu þakkir fyrir framlag hans. Það er von Snóksfélaga að gestir síðunnar njóti þess að kynnast hér blánefi Tröllaskagans í máli og myndum og það hvetji þá til að ganga um svæðið og skoða með eigin augum þennan sérstæða landshluta.

Ljósmyndarar

Eftirfarandi er listi yfir þá sem eiga ljósmyndir á síðunni. Upphafsstafir þess sem tók myndina eru skráðir neðst í hægra hornið á hverri mynd.

 • ADS - Anna Dís Sveinbjörnsdóttir
 • BJH - Björn J. Hannesson
 • GÍ - Gretar Ívarsson
 • GR - Guðný Róbertsdóttir
 • GSB - Guðmundur S. Björnsson
 • HPB - Hannes P. Baldvinsson
 • JBH - Jón B. Hannesson
 • MÖ - Már Örlygsson
 • MWL - Mats Wibe Lund
 • StKr - Steingrímur Kristinsson
 • TJ - Tómas Jóhannesson
 • ÖK - Örlygur Kristfinnsson

Auk þess eru nokkrar eldri myndir þar sem ljósmyndarar eru óþekktir.


Hönnun

Hönnuður og kóðari síðunnar er Magnús Sveinn Jónsson, margmiðlunarfræðingur. Einnig hannaði hann kortið hér á forsíðunni. Hægt er að hafa samband við hann á netfanginu maggisv [hjá] gmail.com.

Þakkir

Bestu þakkir færum við öllum þeim, sem með beinum eða óbeinum hætti hafa stutt við og stuðlað að þessari vefútgáfu. Í þeim hópi eru:

 • Ingvar Þór Sigurðsson
 • Kristján L. Möller
 • Fjárlaganefnd Alþingis
 • Menningarsjóður Sparisjóðs Siglufjarðar
 • Magnús Sveinn Jónsson
 • Jón Baldvin Hannesson
 • Gunnar Júlíusson
 • Björn Júlíus Hannesson
 • Arnold Bjarnason
 • Jónína Hafsteinsdóttir
 • Jóhann Stefánsson
 • Karl Helgason
 • Bjarni E. Guðleifsson

Einnig þökkum við öðrum sem hafa aðstoðað við öflun upplýsinga, útvegun ljósmynda eða á ýmsan annan hátt gert okkur mögulegt að koma upp þessari vefsíðu.


Fara efst á síðu