Siglunes

Það er bær sá er Landnáma telur bústað hins fyrsta landnema þar í byggðum, Þormóðs hins ramma. Stendur hann vestan við norðurenda Siglunesmúla (2), en svo heitir fjallið austan Siglufjarðar inn að Kálfsskarði en aðeins ysti tindurinn Siglunesgnúpur (3), þó svo ei það [sé] hér allt nefnt. Stenst býli þetta á við eyðibýlið austan Gnúpsins og hafa tún þeirra beggja verið mynduð á grónum skriðum frá gjám þeim, er Gnúpinn hafa frá skilið. Bærinn er og skammt suður og upp frá hinu formfagra Siglunesi (3a), sem svo hefur nefnt verið í öndverðu og bærinn síðan. Hefur hið forna tún allstórt, verið traustum görðum girt. Hér var og lengi höfuðból þessara afskekktu byggða og þingstaður, einnig aðalkirkja og prestsetur til 1613, síðan hálfkirkja til 1765. Sér enn leifar grafreits sunnan við bæ er brotinn var nýlega, var þar grafið fram á síðustu öld. Búið hefur hér alltaf verið, eru búendur hér nú fimm.

Messað á Siglunesi 22. júlí 1984. Mannfjöldinn er samankominn sem næst þeim stað, þar sem talið er að kirkjan hafi staðið 1613. Svarthöfðasteinar sjást greinilega og fjær sést í hafísrönd.

 Sunnan kirkjugarðs er Kirkjugarðsdagslátta (4), austur frá honum Kirkjuhóll (5), stakur hólbali en neðarlega í túni Kirkjulækur (6). Túnið upp frá bæ, hin forna skriða, nefnist Sléttivöllur (7), suður og niður frá bæ Tveggjadagavöllur (8), en neðan bæjar og öskuhaugs Beinateigur (9). Utan hans og bæjar fellur Bæjarlækur (10), þar næst út og niður er Þormóðsvöllur (11) og á honum Þormóðssteinn (12). Þar er og annað býli nýlega reist. Næst þar út og niður er Lambhúsvöllur (13). Þar er og nýlegt býli en milli valla þessara fellur Lambhúslækur (14) og sameinast Bæjarlæk og Kirkjulæk sunnar og neðar. Suður frá Lambhúsvelli er Hesthúsvöllur (15) og á honum Hesthúshóll (16), en suður og niður frá honum, nær sjávarbökkum, Selskinnahóll (17) og sunnan hans Einstakihóll (18). skammt suður frá bæ er og Mylnuhóll (19) var þar áður vindkvörn.

Norðurendi Siglunesmúla

 Sunnarlega í túni beint suður frá bæ var hjábýlið Brandshús (20) byggt snemma á 17. öld, en eyddist nál. 1744, fylgdi því syðri hluti hins forna túns og nefndist Brandshúsatún (21). Var það fráskilið af mýrardragi niður í gegn, nefnist nú Kottún [21a]. [ Neðanmáls er skrifað: Lambhúsnef [21b] Lambhústöng [ 21c] endar við garð.]

Niður frá Brandshúsum á sjávarbakka var og hjábýli reist um 1882, nefnt Neskofi (22) eru þar nú tvö býli, annað nýreist. Syðst fram frá túnhorni er flúðatangi lítill, nefndur Lambhústangi (23). Mun það af því að lambhús hafa hér eitt sinn verið suður og upp frá enda túnsins, en fast upp við túngarð Glaumbæjar, sem getið verður.

Uppfrá bæ ofan við túngarð, var einnig hjábýli um stund, laust fyrir aldamót síðustu, nefnt Litli-Bær (24). Þar er nú rétt og kvíar voru þar austan túns áður, en austar er allstór hóll, nefndur Kvíahóll (25).

Gjá sú er áður getur upp frá bæ, nefnist Bæjargjá (26), en skriðubunga mikil niður frá henni, ofan túns Skjöldur (27). Sunnarlega á honum er stakur steinn, Litliklettur (28). Norður og norðaustur frá bæ er láglendi mikið grösugt. Nefnist hið næsta af því út frá túni Félagsmýri (29), en allt í heild Nesmýrar (30). Suðaustur frá þeim út frá Gnúpnum er hólaklasi allhár, Neshólar (31). Efst á þeim fast upp við Gnúpinn er Siglunesviti (32) og býli vitavarðar. Þar nokkuð vestar er Vörðuhóll (33), en yst í hólunum Hesthólar eystri (34) og -vestari [34b], en sunnar í þeim Hólalautir (35).

Mjór malarkambur aðskilur Norðurmöl t.v. og Neskrók innan við mölina

 Skammt norðvestur frá túni gengur Siglunesið þvert vestur fyrir mynni Siglufjarðar. Nefnist víkin innan þess Neskrókur (36). Sunnan á nesinu hefur uppsátur mikið verið áður og varir nokkrar ruddar, einkum ofan til; heitir þar Suðurmöl (37); fram frá henni er blindsker lítið nefnt Selsteinn (38). Búðir hafa hér víst margar verið á fyrri öldum auk hjáleigubýla, sem sagt er hér hafi verið 12 og fleiri fornra mannvirkja; másk(e) hauga en allt var hér í auðn fallið um 1600 þá prestar hér við skildu og er nú að mestu horfið og gleymt. Hefur sjór hér drjúgum brotið land og mörg hafa hér síðast verið fjárhús byggð, flest ofan á fornar tóftir. Horfnar eru og allar þær búðir sem hér voru enn reistar á síðustu öldum. Stóðu lengst þrjár þeirra upp frá austustu vörum, allar samhliða. Var austust Þorleifsbúð (39), þá Jónsbúð (40) og vestast Baldvinsbúð (41); áttu þær kunnir bændur á Siglunesi seint á 19. öld. Litlu vestar eru tóftir tveggja búða saman er nefndust Snorrabúð (42) og Antonsbúð (42b). Lítið norður frá þeim er Snorratjörn (43), en vestar og enn nær Snorrabali (44). Er það hóll eða stór forn haugur. Á honum er búðartóft nefnd Magnúsarbúð (45); þá eru litlu vestar tvær búðatóftir gamlar og spölur á milli og því næst haugrúst mikil, lág og óglögg tæpt á bakkanum, nefnd Skjaldbreiður (46). Hefur svo sagt Jón, fyr[rverandi] hreppst[jóri] á Hafsteinsstöðum, sem hér var nál. 1880, að þá hafi sjór brotið framan af haug þessum og í ljós komið mörg mannabein. Þá er enn búðatóft lítil en vestur frá henni tvær rústir, hin eystri sem lítill haugur, hin vestari allstór. Þar litlu norðar og hærra er einnig byggðarúst allmikil og tóftir ofan á henni; hafa hér líklega verið tvær hinar fornu hjáleigur. Munu helst við þessar byggðaleifar eiga örnefnin Háavíti (47) og Lágavíti (48) sem hér eru kunn, en ekki fullvíst hvar eru. Vestan fram frá haugum þessum eða rústum gengur tangi lítill og flúðahryggur suður úr nesinu, nefndur Slysfaratangi (49); nú “Slysfarir” [49b]. Er þar hætt ókunnugum í dimmu og hafa slys orðið, er sagt að þar færist eitt sinn hópur Grímseyinga. Þar litlu vestar er búðatóft lítil, hin vestasta, nefnd Steinkubúð (50), er þá allra eldri mannvirkja getið á suðurströndinni og þar með hinna fáu, sem hér eru ósködduð.

Arinn og viti

 Vestasti hluti nessins er lágur og lautóttur; nefnast það Neslautir (51); norðvestan við þær er vík nokkur nefnd Skeljabót (52). Beint vestur frá nesinu er flúðahryggur alllangur, nefndur Sigluneshella [52b] eða Hella (53). Ofarlega á flæðihrygg þessum er klettur nefndur Hellusteinn (54). Ofan við hann framan við nesið er fær leið smábátum í kyrrð og hásævi, nefnd Grunnaleið (55). Austur frá Skeljabót og [Nes-Lautum] er nesið mun hálendara, og hafa á því svæði flest verið hjáleigubýlin og fleiri mannvirki, en síðar öll upppæld og yfirhlaðin nýrri tóftum. Norðan þessa svæðis er Harðibakki (56). Hann hefur og eyðst af brimi og foki og þannig allt hið ysta horfið. Yst á honum eru gamlar byggðaleifar kunnar einnig yfirbyggðar; nefndist þar Sveinaskáli (57), vafalaust verskáli forn og líklega eitt hjábýlanna, þar litlu austar var Ásgrímsbúð (58) og lending.

Norður frá nesinu er grunntangi allmikill með mörgum stökum klettum; eru það þeir Svarthöfðasteinar (59), sem Svarfdælasaga getur. Austan við grunn þetta er vík nokkur nefnd Norðurkrókur (60) og fyrir botni hennar Norðurmöl (61). Þar er lægst nesið og einnig mjóst, hefur sjór þar mjög á það gengið og yfir það stórlega til skaða 1772 og 1934. Tók þá báta, sauðfénað o.fl. Austast í Norðurkrók er Ástuvík (62) og þar lending hin austasta. Þar austur frá er Hesthúsnes (63) og fram frá því Hesthústangi (64). Hafa hér eitt sinn hesthús verið og fleira er hér gamalla byggða. Austur frá nesi þessu norðan Nesmýra, eru smávíkur nokkrar nefndar Dýjavíkur (65). Þar er og flúðatangi nefndur Dýjavíkurtangi (66). Austan við Dýjavíkur er Sauðalækur (67), uppspretta í bökkunum og austan við hann Sauðalækjartangi (68) þá Tófukofi (69) [ógreinilegt (ekki ?)] gamalt og Tófukofavík (70).

 

Svarthöfðasteinar norðan við Nestá

Slysfarir

Gömul sjóbúð á Siglunesi árin 1984 og 2000

Siglunesviti


Fara efst á síðu