Máná

MánáSá bær er yst í Úlfsdal hinum meiri, vestan ár, gegnt Dalabæ. Milli þeirra fellur aðalá dalsins nefnd: Máná (2) mun það fornt nafn og líklega komið frá einum félaga Úlfs kappa er Máni hefur heitið og hér reist bústað sinn, gengt bæ foringjans. Er hér byggðar-stæði allgott og tún hefir allmikið verið, en fremur óslétt. Er hér engjaland einnig nokkuð innan hinnar stóru samgirðingar, er verið hefir umhverfis býli þessi bæði og getið er. Má ætla þetta verk hinna fyrstu er hér áttu byggð. Hefir þessi mikli garður legið hér skammt vestan túns og beint að sjó út, en illa við haldist sakir fjöru og brims. Er hér því annar garður mun yngri og þó forn, þvert austur um túnið nokkuð inn frá bökkunum og beint á móti Lambhagagarðinum austan ár. Virðist hann svo innarlega settur sakir sjávargangs við árkjaftinn. Þá er og forn girðing hringmynduð innan hins mikla garðs vestur frá bænum. Er hún og yngri en hann og virðist helst fornt fjárból. Haglönd eru hér góð, sem hvarvetna í dölum þessum, reki og heimræði nokkuð, en lending við haf opið. Engi eru hér mikil, slétt og fögur, allt inn frá bæ milli ár og hlíða fjallsins.

Lengi mun býli þetta hafa í auðn verið sem hin, á 14. 15. og 16. öld einnig um 1760 nokkra hríð; en síðan í ábúð til þessa. Við byggð þessa eru nú ýms örnefni kennd, þó fátt geymist hér fornra nafna. Nefnist hér engi slétt og fagurt skammt inn frá túni: Mánárgrund (3) fjallið vestan dalsins að vestur merkjum: Mánárfjall (4) ysta hyrna þess: Mánárhyrna (5) dalur nokkur vestur úr botni aðaldalsins: Mánárvik (6) og ströndin frá Máná að Dalaskriðum: Mánárströnd (7) þá nefnist túnið niður og út frá bæ, að hinum forna þvergarði: Heimavöllur (8) en utan hans: Niðurvöllur (9) eru á honum hávaðar nokkrir, fjárhús ofl. nýlegt, en lítið austar tóftir frá 1890-95 nefndar Gunnlaugstóftir (10), syðst í honum er og þúfa ein sem ei má nýta sem víðar er hér; en yst og neðst í Heimavelli er hólbali með tóftum, nefndur: Hesthúshóll (11). Ofanbæjar nefnist hin kringlótta girðing: Hringur (12). Næst sunnan bæjar er: Lambhúshóll (13) vestur frá honum: Kvíamór (14) en sunnan Lambhúshóls er mjór lítill hólbali með tóftum nefndur Svunta (15).

Undir MánárskriðumSuður með ánni innst í hinni fornu girðingu er allstór melur með fjárhústóftum mörgum og tún gott nefnast þar: Gerði (16) og standast þau á við Gerðin austan ár. Virðast fjárhús beggja býlanna hafa áður verið hér innra, flest eða öll, en síðast flest við sjó út. Utar við ána, beint niður frá bæ er Torfholt (17) og skammt utar nes lítið, nefnt: Lækjarnef (18). Skammt vestur frá túni á melhæð einni hefir gömul tóft verið, nefnd: Miðaftanstóft (19) var síðar byggð þar rétt. Suðvestur frá túni eru mýrakollar með dældum nokkrum, nefnast þar: Hvosir (20). Vestur frá þeim, en norðan við enda Mánárfjalls, er stór hóll, nefndur: Dýrhóll (21) og ofan við hann: Dýrhólslaut (22).
Lítið vestur frá Undirvelli, sem einnig kallast nú Húsatún er klettahlein fram í sjó, nefnd: Húsahlein (23) og fram frá þrír stakir steinar nefndir: Bræður (24). Nokkuð vestar með sjónum er: Sandvík (25) og enn nokkuð vestar (innar): Stekkjarvík (26) upp frá henni: Stekkjarlaut (27) og þar stekkjartóftir, en norðan víkur Stekkjarhlein (28). Allt frá Stekkjarvík að Mánárósi, nefnast: Ytri-Fjörur (29) en inn til merkja Innri-Fjörur (30). Inn frá Stekkjarvík er standberg lítið, nefnt: Hrafnaklöpp (31) og nokkuð innar Landsendi (32). Er þá komið að hinum bröttu Dalaskriðum sem fyrr er getið, vestan í norðurenda fjalls þess er Dalalönd og Almenninga skilur, eru þær allbreiðar og allt af háfjalli ofan; þó færar hið efra og þar alfara sumarleið, nefnd: Skriðugötur (33) en slóðir eru einnig á neðstu nöfum, ofan við flugbratta sjávarbakka nefndar Nafagötur (34) liggja þær beint milli enda strandanna og er það í minni geymt, að þar hafi eitt sinn verið með hest farið, en tvisvar um Nesskriður. Neðan við Dalaskriður er og ófært fyrir klettahöfða, er framundan þeim gengur nær miðleiðis; er hann með grastó nokkurri og nefnist því: Græniforvaði (35) eru þar landa og sýslumörk nú, þótt uppdrættir hinna dönsku foringja sýni þau um miðja Almenninga.

BerkolluskriðaAustan í Mánárfjalli, nær yst og efst, en innan Mánárhyrnu, er dæld ein nefnd: Bolli (36) niður frá honum gil, nefnt: Berkollugil (37) og niður frá því mikill forn framburður: Berkolluskriða (38). Allmikið sunnar er önnur meiri skál, ofarlega, nefnd: Leiðarskál (39). Sunnan og vestan við skál þessa, er mikill ávalur fjallshnjúkur, nefndur: Skálarhnjúkur (40) en austur frá honum, sunnan skálar, melhöfði nokkur, nefndur Fell (41). Upp í skál þessa að austan og vestur frá henni yst, norðan hnjúksins, er leið alkunn og hin eina yfir fjall þetta, til Almenninga og Fljóta, einkum vetrarleið, þá torfært er um Dalaskriður. Niður frá Leiðarskál fellur Leiðarskálarlækur (42). Út frá honum að Berkollugili og allt upp milli Leiðarskálar og Bolla, nefnist vesturhlíð fjallsins: Breiðafjall (43) neðan við rætur þess Hjallar (44) og niður frá þeim: Hjallabrekkur (45).

Innst á Mánárgrund áðurnefndri er: Gamlistekkur (46) og þar niður við ána hvammar þrír litlir; niður frá Mánárgrund: Ysti-Hvammur (47) skammt innar: Mið-Hvammur (48) og innst: Syðsti-Hvammur (49) en upp frá þeim nefnast: Jaðrar (50). Þar næst innar, nær beint gegn hinu forna býli austan ár, er nes við ána, þurrlent og þýft nokkuð; tóftaleifar eru þar og nokkrar gamlar, virðist þar hafa verið lítið hjábýli um stund, þó ekki á fyrstu öldum því engar sjást þar girðingar og ókunn er byggð þessi að öllu; nefnist nú reitur þessi Þúfnamór (51) og engið þar umhverfis Þúfnamósspilda (52). Næst henni að innan, er: Litla-Spilda (53) og fellur Leiðarskálarlækur sunnan hennar; en inn frá honum nefnist Fremsta-Spilda (54). Innan hennar gengur hálfgrýtt móaspilda allt ofan að á, líklega leifar fornrar skriðu og nefnist: Stórimór (55). Neðst í honum, nær á árbakkanum, hefur verið: Mánársel (56) eru þar tvær selkofatóftir og kvíar, fáum metrum neðar en sel og kvíar Dalabæjar á eystri árbakkanum. Inn frá Stóramó eru og engjabreiðar nokkrar, út og niður frá Mánárviki, er áður getur, nefndar: Viksmýrar (57).

Mánárdalur

 

Vestur frá dalbotni norðan Mánárviks er fjallstindur all hár nefndur: Vikshnjúkur (58) og berghnjúkur lítill austurfrá honum, nefnd-ur: Litlihnjúkur (59). Norðan Litlahnjúks er dalhvolf allstórt ofarlega nefnt Stóraskál (60) en norðan hennar er Skálar-hnjúkur og Fellið, hvort-tveggja áðurnefnt. Niður frá Stóruskál er: Stóru-skálargil (61) og fellur um það Syðri-Stóruskálar-lækur (62) en yst úr skálinni Ytri-Stóruskálar-lækur (63). Fellur hinn syðri innan við Stóramó og Mánársel en hinn ytri utan þess.  


Fara efst á síðu