Gnúpur

Horft til norðurs um NesdalÞað er eitt hinna fornu býla, hefur staðið austan við enda Siglunesmúla undan gjá þeirri er að nokkru skilur Siglunesnúp frá Múlanum og átt vesturhlut dalsins til sjávar, sem Reyðará hinn eystri. Það hefir snemma komist undir Siglunes og í auðn líklega þegar á 14. öld. Hefur aurskrið úr gjánni síðar hulið meirihlut túns og mannvirkja, en forn garður sést neðan þess mjög mikill; hefir tún verið slétt og byggðarstæði fagurt. En nafn þess nú gleymt þó Gnúpur sé hér nefnt og glötuð öll örnefni er á það minna.

Tóftarúst er hér mikil niður frá garði, líklega af hjábýli því er virðist getið 1712 og nefnt Króksskáli (2) mun það helst frá 16. eða 17. öld og hefir skammt staðið. Stekkur er og allstór við hinn forna túngarð eftir Siglunesbú á síðustu öld, nefnist hér því Stekkjargjá [2b] upp frá bæ réttara: Gnúpsgjá (3), Stekkjargrund (4) suður frá honum, en suður frá henni er Djúpihvammur (5). Stekkjarás (6) er og út og austur frá bæ, en Stekkjarspilda (7) engið hið næsta. Suður og neðar eru engjar hér hvarvetna inn dalinn og nefnist þau næst Torfspilda (8) þá Kúanesspilda (9) en Kúanes (10) niður frá henni við ána, þá Heygarðsspilda (11), þá Pollengjaspilda (12) og loks Selspilda (13) en sunnan hennar Siglunessel (14). Eru tóftir þar svo miklar sem býli hafi verið, alls 9 sumar fornlegar enda heygarðar ofl. Þar skammt ofar er Ytra-Byrgi (15) smalakofi. Milli seltóftanna fellur Sellækur (16) kemur úr Selskál (17) upp í hlíð Múlans. Skammt utar og ofar er lítil skál Ausa (18) niður frá henni syðst gengur Syðri-Ausugjá (19) en yst Ytri-Ausugjá (20) og niður frá henni Stóraskriða (21) inn frá Djúpahvammi áðurnefndum.

Nesdalur, Hestur

Reyðarárdalur úr lofti

 

 

 

 

 

 

 

 

Skammt suður og ofar frá Selskál er Beinaskál (22) þar munnmæli um útburð, niður frá henni er Stóragil (23) og nefnist Stóragilsfjall (24) hlíðin þar inn (og út). Niður frá gilinu eru Steinaflatir (25) og Steinaflataspilda (26) engjar. Þar nokkuð sunnar er Álftatóft (27) stór heygarður og út frá henni Álftatóftarspilda (28) en inn frá henni Háumýrar (29) einnig engjar. Inn frá henni er grýttur melhryggur þvert ofan hlíð Langihryggur (30) út frá honum neðst er Langahryggstjörn (31) litlu ofar Fremra-Byrgi (32) einnig smalakofi, en út og upp frá hryggnum 3 litlar skálar Langahryggsskálar (33) suður frá Beinaskál. Suður frá hryggnum kallast Bungur (34) eru þær niður frá Kálfsskarði sem getið mun við Staðarhól, en um það liggja vegslóðir vestur í Kálfsdal og Siglufjörð. Suður frá dalbotni vestarlega upp á eggjunum er kletthnjúkur lítill nefndur Matklettur (35) (eyktamark).

StóragilsfjallNokkuð út frá hinu forna býli norðaustan við Gnúpinn er Sauðahvammur (36) vestan við hann Háasteinsskriða (37), er Háisteinn er þar stóð lengi nú horfinn. Þar skammt utar kallast Grænutóftir (38) er þar talið 1712 að hjáleigukot hafi eitt sinn verið, líklega á 16. eða 17. öld, en litlar sjást þar byggðaleifar enda láglent og vatn mjög í jörðu þó sem túnlitur nokkur. Nokkuð austur þaðan er Rauðaflag (39). Vestur frá Reyðarármynni er Fúlavík (40) og næst ánni Fúluvíkurtangi (41) suður frá víkinni Lómatjörn (42) en vestur frá víkinn Langamöl (43). Vestan við hana er Eystri-Höfði (44) og fram frá honum flúðir nefndar Vattnestangi (45) en þar strandaði skipið Otto Wathne 1906. Vestan við höfðann er Höfðavík (46) og þá Vestari-Höfði (47).


Fara efst á síðu