Meiri-Höfn

HlíðarhúsSá bær stendur allskammt utar við fjörðinn og nær honum, en þó fremur hátt; gengur hæðabunga nokkur þar fram frá hlíðinni og er byggð þessi framan á henni, í halla nokkrum mun þar undan áður hafa verið miðja hafnarinnar. Liggur túnið að sjó, allmikið og grösugt en nokkuð þýft; um það er garður forn, allt á bakka ofan, sem nokkuð hefur verið færður út að norðan, þegar á fyrri öldum. Lönd hafa hér ekki stór verið, því skammt var til næstu byggða, tveim megin, en engi ágætt og hægt til flestra fanga; má vera að snemma hafi þetta býli mest orðið, þeirra þriggja er hér lágu að höfninni; lögðust og hin bæði undir það um síðir.
Hér mun og jafnan hafa búið verið frá fyrstu tíð og er enn nokkuð. En svo fast er nú gengið á hið forna tún, til byggðalóða, frá kaupstaðnum, þó án þarfa, að vart mun þetta góða býli langa sögu eiga hér eftir. Nokkur örnefni mættu þá geyma minning þess um stund; nefnist hæð sú er á stendur byggðin: Hafnarhæð (2) lækur norðan bæjar: Hafnarlækur (3) engið allt frá túni Hafnarengi (4) bakkarnir neðan túns og engis Hafnarbakkar (5) - einmitt til þeirra takmarka tveim megin, er ætla má að verið hafi landamörk að fornu - og fram frá bökkunum innarlega lítið nes Hafnarnef (6). Þá nefnist og fjallið, allt út frá Snóksárdrögum að Hvanneyrarskál: Hafnarfjall (7).

HafnarfjallNiður á sjávarbakka, yst í horni túnsins, var hús reist af timbri um 1864 bjó þar eigandi Hafnar um sinn og nefndist það Neðri Höfn (8) er það hús nýfallið. Í túni eru örnefni fá og smá; nefnist Lambhúshóll (9) suður frá bæ, syðst á túni, Fjóstóftahóll (10) utan bæjar og lækjar Hesthúshóll (11) nokkuð utar, og yst af túni Skriðuhæð (12) er það aurskriðuhryggur forn og gróinn með alldjúpum farveg í miðju, einnig grónum, er nefnist: Stóralaut (13) hafa hinar fornu girðingar túnsins verið færðar út að henni frá Hesthúshól. Þar litlu utar var og hjábýli reist um 1900 nefnt Skriðuland (14) var það af torfi og lengi einstakt, þó nú sé þangað komin byggð kaupstaðarins; norðan við það fellur Skriðulækur (15). Upp frá bæ við hinn forna túngarð, var einnig hjábýli reist um 1898 nefnt Hlíðarhús (16) er þar enn búið. Innri hlut Hafnarengis eru nokkrir djúpir skurðir og lækjaför, en milli þeirra engjatungur fagrar, nefnist ein hin mesta þeirra (og innsta) Stekkjartunga (17) í henni miðri eru leifar af stekk er síðast nefndist Gamli Stekkur (18). Neðst í henni á bökkunum eru og fornar tóftir líklega af stekk og þar suður frá Stekkjareyri, sem getið er frá Minni-Höfn. Er líklegt að hér hafi stekkjarból Meiri-Hafnar verið, allt frá er löndin voru skipt og Minni-Höfn byggð, og þá syðst í landi Meiri-Hafnar er og sunnan tungunnar djúpt lækjarfar sem líklegust hefðu verið merki. Syðst og neðst í Stekkjartungunni eru fenholur tvær litlar, nefnast þær: Efra Höskuldarfen (19) og Neðra Höskuldarfen (20) hefur því verið hér trúað að í öðrum hvejum þessara pytta hafi Höskuldur bóndi í Höfn, áðurnefndur falið fé nokkurt; mun og talsvert hafa verið rótað við báðum þessum holum, máske oft.

Fífladalir - HvanneyrarskálSpegilmynd við Langeyri

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Uppi í hlíð fjallsins, ofan Meiri-Hafnar, eru giljadrög nokkur, flest, allt frá hábrún ofan til hlíðarróta og milli þeirra meltungur allbrattar. Eru þar, næst út frá Blýkerlingarmel, áðurnefndum, en suður og upp frá bæ, tvö gil allt niður í gegn og milli þeirra melhryggur, mjór og jafn, allt upp í brún nefnist hann Strengur (21) en gilin Innra Strengsgil (22) og Ytra Strengsgil (23). Næst út frá þeim er breiðari meltunga, nefnd: Breiðimelur (24) þá hinn næsti nokkuð mjórri Auðimelur (25) og loks, út og upp frá bæ, mjög mjór melrani, nefndur: Kattarhryggur (26). Ofan við fjallsbrún þá er hæst sést að norðan, eru daladrög nokkur er suður liggja og úr hallar vatni í Strengsgilin og Hafnarlæk, er að nokkru kemur úr ytra gilinu, nefnast þau Leirdalir (27) og hæðirnar austan þeirra Leirdalabrúnir (28). Vestan Leirdala er aðalhryggur fjallsins og nokkuð hærri en eystri brúnirnar; en lægð er í hann nokkur, vestur frá Streng. Hefur hér verið tíðfarin gangleið þvert yfir Hafnarfjall í botn Úlfsdals hins meiri og oftast gengið upp Streng og vestur um lægð þessa; nefndist þetta því Strengsleið (29) og lægðin Strengsleiðarskarð (30). Ekki er leið þessi hestfær talin, sem hin áðurnefnda Dalaleið, enda brekka meiri að austan; en beinni og fljótfarnari léttgengum mönnum.


Fara efst á síðu