Minni-Höfn

Tign býr í fjöllumAllt frá landnámi hefir verið kunn og góð höfn innst í Siglufirði að vestan, þó mest á fyrri öldum, því mjög er á hana gengið að síðustu, af náttúru og mönnum. Hafa og tvö býli er nærri henni hafa verið reist, þegar í fornöld, fengið nafn af henni. Stóð hið innra vestur frá syðri enda hennar og nefndist Innri- eða Minni-Höfn. Hefir þar byggðastæði verið mjög fagurt tún og engi síbreiða ein, neðan hlíðar, slétt og grösug. Túnið hallandi grundir þurrt og sjálfgjört, en engi rök. Stóð bærinn nokkuð upp frá sjó og sést nú óglöggt fyrir rúst hans, lítið ofan vegar og túngarður forn á kafla, sunnar og ofar. Mun hér hafa búið verið hinar fyrri aldir, en í auðn farið á 15. öld. Er býlis þessa getið seint á 14 . öld, en virðist nýlega í auðn komið 1449. Hefir það máske valdið, að lækur féll norðan bæjar er nefnst mun hafa Minni-Hafnarlækur (2) er svo hefir brotist á túnið og mjög á það borið aur og möl og hulið að síðustu flest mannvirki, tún og garða, utan syðst og efst, en þar sýnir hinn forni garður takmörk þess, aðeins að sunnan og ofan, verður stærð þess því ekki séð.
Lönd hefir býli þetta átt upp til fjalla, þó ekki stór, en engi mikil og samfelld neðra. Mun mestur hluti landsins inn og niður frá bæ, þá hafa nefnst Minni-Hafnarengi (3) auk sérnafna nokkurra, en glötuð munu nú flest gömul örnefni kringum byggð þessa. Mun Kvíaholt (4) hafa nefnst ofan túnsins, þar kvíaból var en kallast nú Nýi-Stekkur frá Ytri-Höfn. Örskammt mun verið hafa til ytri merkja en tvær eru eyrar niður frá bæ. Nefnist nú vestan fjarðarhornsins Stekkjareyri (5) en sunnan Langeyri (6) og milli þeirra Langeyrarstekkur (7) lítill ás. Sunnan Langeyrar er flæðilón mikið og vestanvert í því lágur hólmi nefndur Skeiðhólmi (8). Sunnan lónsins eru hin sléttu engjalönd, nefnast þurrir bakkar við Siglufjarðará: Hafnarnes (9) upp frá því og allt suður að Snóksá Votamýri (10) en ofan hennar, nú neðan vegar: Votumýrarhallar (11). Allt til síðustu tíma var alfaraleið frá kaupstaðnum inn fjörur, austur Langeyri og suður um síkið og Hafnarnes; svo tvisvar austur yfir Siglufjarðará inn nokkuð frá Álfhól uns leiðir skildu og Fljótamenn fóru innan Grísarár upp til Skarðsdals; voru þeirra ferðir tíðastar og nefndust því brotin á ánni Fljótamannavöð (12) einkum hið innsta og ofan við það Fljótamannahylur (13) er þó sumir nefndu Finnhólahyl [(13a)].

HólsbrúinNiður frá Skjaldargiljum eru skriðugundir grónar miklar og víðlendar því all vítt hefir áin runnið, nefnast grundir þessar (utan ár) Steinaflatir (14) ofarlega á þeim er nú skilarétt Siglfirðinga flutt þangað frá Hóli 1907 og nefnd Hafnarrétt (15). Yst á grundum þessum ofan við veginn er hjábýlið Steinaflatir (16) byggt 1910 og eru þar tómthúsmenn. Þar utan bæjar er Steinaflatalækur (17) en út þaðan, ofan vegar nefnast engjalöndin Háumýrar (18). Beint upp frá bæ er skál allstór efst í hlíð, nefnd: Jörundarskál (19) úr henni kemur Minni Hafnarlækur. Sunnan hans nokkuð neðar í hlíðinni er lítil dæl, vel gróin, nefnd: Nautaskál (20) og niður frá henni, upp frá bæ neðst í hlíð: Nautaskálarhólar (21). Norðan lækjar og skálanna er melur allbreiður, nefndur: Blýkerlingarmelur (22) er sagt að fundist hafi í honum blýflaga nokkur. Sunnan lækjar og hólanna er hlíðin jafnlend allt inn að Skjaldargili ytra; er þar oft snjólétt á vetrum og nefnist svæði þetta Þrautabeit (23). Hér var og annar gamall vegur inn frá kaupstaðnum; lá hann um Hafnarbýlin bæði og inn með hlíð þessari, svo upp Skjöld, slakkana norðan Snóks og norðvestur til Úlfsdala um Dalaskarð; nefndist vegur þessi hér Dalaleið (24). Nálægt vegi þessum suðaustan við Dalaskarð er vörðubrot eitt, er nefnist Styrbjörn (25) halda sumir hér það dys, þó ólíklegt sé; en sagt er að þar hafi bráðdauður orðið Styrbjörn bóndi á Hóli, á heimleið frá Dalabæ með þunga byrði matar stolna frá Rafni bónda þar; var dauði hanns kenndur göldrum Rafns. Aðrir segja þó Styrbjörn hafa búið í Úlfsdölum en stolið frá Höskuldi bónda á Meiri Höfn, sem líka var mjög fjölkunnugur talinn og hafi hann valdið dauða Styrbjarnar. Trúlegra er þó að þá hefði hann farið utar yfir fjallið. Virðist sögn þessi vera frá fyrri hlut 17. aldar, því þá voru þeir Rafn og Höskuldur kunnir bændur en oft munu hér hafa verið gripdeildir útlendra og innlendra. Rafn drukknaði við 6. mann 1636 af ofhleðslu við seladráp í ís.

Styrbjörnsdys við DalaskarðIllviðrishnjúkur og Hádegisfjall í bakgrunni

 

 

 

 

 

 

 


Fara efst á síðu