Möðruvellir

Austurhlíð HéðinsfjarðarÞað er innst býli í byggð þessari, austan ár, og ekki langt inn frá Grund. Hefir bær þessi staðið á sléttum hallandi grundum, neðan hlíðarinnar, eða völlum víðum og fögrum, sem þegar í fyrstu hafa nefnst: Möðruvellir (2) og bærinn þar af. Hefir hann snemma reistur verið og er hér mikill og forn garður um fremur stórt tún, svo slétt og fagurt að fá finnast slík. Lönd eru hér góð og mikil, allt austur og inn til háfjalla, en engi minni en á hinum næstu býlum og átti jörð þessi ítak vestan ár, í Ámárlandi, bæði engi og hrís fram á 18. öld, uns hún fékk hlut af löndum Grundar, sem getið er, líklega 1725 – 45 þá snjóflóð hafði eytt byggð á Vatnsenda en hér var nokkuð búið þau ár, þó tregt byggðist. Þetta býli mun hafa í auðn verið að mestu 14. 15. og 16. öld, en byggt lengst af hina 17. og fyrri hlut 18. aldar. Þó í eyði allmörg ár eftir 1705 og oftar 1 – 2 ár og stöðugt í eyði 1755 til 1785. Þá byggt nær óslitið til 1904 en síðan í alauðn.

Hér mun því síst fremur forn nöfn að finna, en hvarvetna í byggð þessari, þó gömul kunni að vera, sem þau er við bæ þennan eru kennd. Er hér skammt utar, vestan í háfjallinu, skál mikil er Grundará kemur úr, nefnd: Möðruvallaskál (3). Brúnir nokkrar miðleiðis upp til hennar: Möðruvallabrúnir (4). Fjallshnjúkur allhár sunnan hennar: Möðruvallahnjúkur (5). Melstallur í hlíðinni skammt niður frá honum: Möðruvallafell (6). Hólaklasi allmikill í hlíðinni inn og upp frá bæ: Möðruvallahólar (7). Eyrar við ána niður frá bæ: Möðruvallaeyrar (8). Út frá þeim: Möðruvallabakkar (9). Og engjalönd skammt út frá túni Möðruvallamýrar (10). Og loks inn frá fjallinu og dalnum þar hæst liggja aðalvegslóðir til Ólafsfjarðar: Möðruvallaháls (11). Um túnið, sunnan við bæ, fellur lítill uppsprettulækur, nefndur: Bæjarlækur (12). En út frá bæ, þvert ofan tún: Stóri-Lækur (13). Sveigir hann neðst, norðvestur úr því og nefnist þar neðst og út frá túni Stóra-Lækjargrund (14) mikil og slétt, byrja út frá henni Möðruvallamýrar.

Örnefni fyrir botni Héðinsfjarðar

 Efst á túni, utan Stóralækjar, hafa fjárhús verið, nefnist þar: Fjárhúsgerði (15). Ofan þess Fjárhúsalaut (16). Litlu utar er: Litli-Hóll (17). En drjúgan spöl beint utar: Stóri-Hóll (18). Efst á túni innan Stóralækjar er Kvíahóll (19). En upp frá túni eru hryggir tveir: norðan með Stóra-Læk: Ytri-Hryggur (20). En sunnan með honum: Syðri-Hryggur (21). Upp af hryggjum þessum, upp í hlíðinni, eru melhöfðar allmiklir nefndir: Hausar (22). Sunnar og neðarlega í hinu forna túni, eru tóftir tvær litlar, nefndar: Símonarkofar (23). Er sagt hér hafi verið Símon einhver einsetumaður og mun átt við Símon Símonarson, sem alllengi var í Héðinsfirði, snemma á síðustu öld, eða Símon Jónsson sem hér var litlu síðar. Þar sunnan og ofan kemur lækur, er fellur út um túnið þvert neðarlega og milli tóftanna, nefnist hann nú: Símonarlækur (24). Ofar í suðurjaðri túnsins er lítil tjörn og mógrafir miklar. Er sunnan við tjörnina lítill hóll, nefndur: Tjarnarhóll (25) og gegnum hana fellur lítill lækur ofan í Símonarlæk, nefndur: Tjarnarlækur (26). Svo er hér niðurhluti hins fagra túns, fyrir löngu í auðn kominn, að með læknum eru grundir gróðurlitlar en neðan hans melagróður einn. Eru þar tvær lágar öldur nær berar, nefnist hin efri þeirra Lyngholt (27) en hin neðri Langholt (28).

Frá mynni til botns

Á gangi í landi Möðruvalla

 

 

 

 

 

 

 

Nokkuð út frá túni, skammt upp frá ánni, þó ofan Möðruvallamýra, er grænn hóll lítill með tóftum af stekk nefndur: Stekkjarhóll (29). Neðan hans er Stekkjargrund (30). En upp frá honum Stekkjarleiti (31). Um það, sunnan hóls og grundar, fellur: Stekkjarlækur (32). Kemur hann úr gili því upp í hlíðinni, er nefnist: Illagil (33) og fellur norðan við Stórahól áður nefndan. Inn frá Grundará er svarðarbakki, austan Héðinsfjarðarár er hún oft brýtur nokkuð, nefnist hann: Svarti-Bakki (34). Upp frá honum, út að Grundará er Svarta-Bakkagrund (35). En inn frá honum, með ánni Svarta-Bakkaeyrar (36) neðan Möðruvallamýra. Alllangt upp sunnan Grundarár, er allmikill hóll er nefnist: Stórhóll (37). Er hann yst á Möðruvallabrúnum, en þær eru þvert um hlíðina milli Illagils og Grundarár. Niður frá þeim í hlíðinni eru gil nokkur og milli þeirra hryggir, nefnist það svæði, utan Illagils: Hryggir (38). Nokkuð upp frá Stórhól og nokkuð fjær Grundará er: Efri-Hóll (39). Þaðan er ekki langt upp í Möðruvallaskál; en fyrir mynni hennar gengur melröðull út frá Möðruvallahnjúk, nefndur: Þröskuldur (40). Upp um Möðruvallaskál og yfir háfjallið, um skarð eitt lítið austan hennar, er kunn gangleið til Ólafsfjarðar. Er hún kennd við Fossabrekkur, sem er kunnugt örnefni austan fjallsins. Norðan í Möðruvallahnjúk, niður í Möðruvallaskál eru gildrög þrjú er um má fara, nefnast þau Austurgjá (41), Miðgjá (42) og Vesturgjá (43). Suður frá Möðruvallabrúnum, milli Illagils og Stóralækjar nefnist: Ytri-Bæjarbrún (44). Nokkuð niður frá henni, en út og upp frá túni nefnist: Klettabelti (45) gengur skriða niður frá því, allt ofan á Stóru-Lækjargrund utan túnsins. Upp frá Ytri-Bæjarbrún er melhöfði allstór nefndur: Högg (46). En upp frá því er Möðruvallafell áður nefnt, niður frá Möðruvallahnjúk. Sunnan Stóralækjar, beint suður frá Ytri-Bæjarbrún, er Syðri-Bæjarbrún (47). Ofan hennar er Bæjarskál (48). Upp frá henni Bæjarstallur (49).


Fara efst á síðu