Nes

Tóftir af LeyningsbænumÞað býli hefir verið stuttri bæjarleið utar í dalnum, þó innar Hóli, en beint gegn Sólheimum, sem síðar byggðust og getið er. Stóð byggðin á vesturbakka árinnar og miðju láglendi dalsins, en nafnið sjálfvalið því túnið var nes eitt, eggslétt sem lækjarkvísl ein skildi frá fögru flæðiengi að vestan. Var skýr forn garður sunnan túns og vestan, en brotið hefur áin austurjaðar þess. Snemma hefir hér byggt verið, en í auðn farið fyrir eða brátt eftir 1400. Er talið að snjóflóð úr austurhlíð geti hér fallið yfir ána og hafi það máski því valdið. Virðist og jafnvel hinn forni bær hafa fyrst staðið austarlega á nesinu og er áin nú komin að þeim rústum, en síðar vestar. Þar var og endurbyggt á 17. öld, var þá hjáleigubýli, nefnt Nesjakot og stóð um 20 ár, eða frá 1660 - 1680.
Tún hefir hér ekki verið stórt en einkar gott og fagurt, en undirlendi mikið, allt hið fegursta engi samfellt. Lönd hefir Nes átt öll innan Skarðdalsár að löndum Hlíðar; þar með suðurhlíð Skarðsdals. Nokkrar fornar sauðaréttir voru hér inn frá túni, einnig ein innan við garðinn og hin yngsta við yngri rústir bæjarins, hafa þær þangað flust þá í auðn lá. Voru fornmenjar því í mesta lagi alls 50 - 60 tóftir, en var nýlega allt niðurbrotið. Átti hér garðrækt að hefja en varð aldrei. Lönd þessa býlis, ásamt Hlíðar, munu hafa lagst undir býlið Skarðsdal um sinn, lágu þar og fast að túni. Árin 1473 og 1488 er jörðin Skarðsdalur seld og fylgir þar með „kotið Leyningur“ (2). Það býli, sem þá hefur ungt verið, stóð norðvestur frá Nesi, á landi þess, fast út við Skarðsdalsá, gegnt Skarðsdalsbæ, er þá stóð á norðurbakka hennar. Nafnið er eðlilegt því lágt stóð byggðin og upp við hlíð, en hvarf er þar mikið upp með ánni, sakir hæða þeirra er fram ganga úr mynni Skarðsdals norðan með ánni þvert í aðaldalinn. Síðan var Leyningur lengi sjálfstætt býli, víst 3 aldir og naut landa Ness og Hlíðar. Var tún þar gott, mikil samfelld engi og býlið hið ágætasta. Það varð eign kaupstaðarins 19... og fór þá bráðlega í auðn og rústir.

Leyningsfoss- einnig nefndur KotafossFlest munu löngu gleymd örnefni frá tíð Ness, eins og Hlíðar, kallast nú Leyningseyrar (3) út og suður frá Nesi, og Leyningsmýrar (4) engin öll inn að Leiti. Einnig Leyningsfoss (5) í ánni upp frá bænum og Leyningskinn (6) engjahjallar neðst í Skarðsdal, sunnan ár. Allt nöfn frá síðari öldum (eins og selnöfnin) þá Leyningur var aðalbýlið orðinn, Nes hjáleiga hans og Hlíð selstöð, máske frá Skarðsdal í fyrstu, þá undir henni lá.
Í túni Leynings, upp frá bæ, er þúfnareitur og tóftir, máske af fjósi, nefnast þar Fjósþúfur (7) og stakt melholt þar ofan túns Fjósholt (8). Sunnan túns er lítill stakur hóll með tóftum, nefndur Geitagerði (9) upp frá honum við rætur hlíðarinnar, hafa kvíar verið, nefnist þar Kvíamór (10). Þar upp af eru melhöfðar nokkuð brattir en nú grónir því á þeim hafa fjárhús verið á síðustu öldum nefnist hinn syðsti Syðsta-Gerði (11) þá hinn næsti er lítið nær hærra: Efsta-Gerði (12) og út og niður af honum: Ysta-Gerði (13) en austan í þeim Gerðabrekka (14). Á Syðsta-Gerði var húsmannsbýli reist um 1891 nefnt Háagerði (15) stóð það til 1916. Upp á Efsta Gerði var og aðalbærinn síðast færður, en stóð skammt.

Útsýni inn eftir HólsdalSuður með hlíðinni er hóll allstór nefndur Geldingaból (16) er þar stekkjartóft. Skammt sunnar er annar líkur hóll er Lambhóll (17) nefnist. Upp frá Gerðunum sunnanvert í mynni Skarðsdals er lág brún nefnd Háls (18). Upp um hana liggur alllangt melholt nefnt Rekstrarholt (19). Sunnan Skarðsdals er fjall allhátt með tindum nokkrum og hvössum hryggjum; er það yst Siglufjarðarfjalla að vestan og nefnist Súlur (20) austan í þvi er breiður stallur mikið lægri og jafnlend nær lárétt brún vestan Siglufjarðardals, inn að Selskál, nefnist hún Súlnabrún (21) en norðurendi hennar Súlnahaus (22) og niður af honum upp frá Leyningi Súlnaröðull (23). Utarlega á hæðarstalli þessum er Súlnatjörn (24) úr henni fellur lækur norður í Skarðsdalsá um Leyningskinn, nefndur Rjómalækur (25) þar upp af kinninni er klettabelti er nefnist Kinnarklettar (26). Þó ótrúlegt sé nefnast hér nú Súlur aðeins hin lága brún þó auðskilið sé að af tindum háfjallsins er nafn fjallsins komið. Vestur frá þeim eru fjallshryggir háir sem nefnast mættu Háukambar (27) en svo nefna Siglfirðingar háfjallið allt.
(Innskot ritað með blýanti: Blasa þeir og við þeim er þjóðleið fer um Skarðsdal svo eðlileg er nafngjöf þessi. Er sú breyting því harðla afsakanleg að nefna aðalhæðir fjallsins Háukamba sem hér er gjört .......... en geyma því leifar hins rétta nafn þess norður á hinum háu brúnum )

Út frá fjallinu eru skörð tvö fyrir botni Skarðsdals, utar hið kunna Siglufjarðarskarð en innar Afglapaskarð (28) eru þar takmörk landanna. Villast ýmsir í skarð þetta að vestan og þykja það afglöp, því nær ófært er austur úr því.

Súlur fyrir miðri myndLeyningsá

 

 

 

 

 

 

 


 

Fara efst á síðu