Vatnsendi

Héðinsfjarðarvatn. Bærinn á Vatnsenda til vinstri, Ámárhyrnur fyrir miðri myndSá bær er nokkuð inn frá Héðinsfirði, austan suðurenda hins mikla stöðuvatns, sem næst gengur inn frá fjarðarbotni og hefir af því nafn fengið. Byggðarstæði er hér allgott einkum þar sem bærinn hefir fyrst staðið, en hætta mikil af snjóflóðum. Hafa og fornmenn ekki hér bústað valið og byggð engin verið á fyrri öldum; eru girðingar hér engar fornar, né annað er til þess bendir. Mun býli þetta hafa reist verið á löndum hins forna býlis: Grundar sem hér hefir verið nokkuð innar, en mjög lengi í auðn. Má ætla að hér hafi fyrst byggt verið á 16. öld eða snemma á hinni 17. og haldist þá til aldarloka og þó í auðn færi þá um sinn og aftur í Stórubólu 1707 var hér enn búið nokkru síðar uns bærinn eyddist í snjóflóði vorið 1725. Létust þar þá 4 menn, eða 5, en 2 lifðu. Var hér svo óbyggt til 1777 en þá að nýju bær reistur á öðrum hávaða nær yst í túni. Er sagt að þar hafi snjóflóð einnig tekið suðurenda baðstofu og sjáist þess enn merki. Hér stóð þó bærinn til 1935 að hann var reistur við vatnið út og niður frá túni og byggð hefir hér haldist, utan fá ár, allt frá 1777 til þessa. Tún er hér nokkuð og túnefni allgott, engi góð og haglönd einnig; hefir þó hvorttveggja meira verið, því lengi hafði býli þetta Grundarlönd nær öll uns þar var aftur byggt og lönd einnig mikil vestan ár, er síðar hafa undan gengið en nokkuð hafa lönd þess aftur aukist að utan.

Forn örnefni mun hér vart að finna, en nokkur eru kennd við byggð þessa. Nefnist hér dalhvolf allmikið upp í fjalli, nær beint upp frá bæ: Vatnsendaskál (2). Fjallstindur hár norðan hennar: Ytri-Vatnsendahnjúkur (3) en sunnan hennar Syðri-Vatnsendahnjúkur (4). Suður og upp frá bæ nær miðhlíðis eru: Vatnsendabrúnir (5) en hið neðra, allt inn frá horni vatnsins að suðurmerkjum: Vatnsendamýrar (6) er það engjaland mikið, flatt og grösugt. Þá nefnast holt nokkur samliggjandi, austan vatnsins, út frá bæ: Vatnsendaholt (7) og grund allstór við vatnið út og niður frá túni Vatnsendaeyri (8). Stendur þar nú hinn nýi bær. Í túninu eru þrír hólar sem hæst ber, tveir með tóftum hinna föllnu bæja, hinn þriðji með fjárhústóftum; nefndir: Ytri-Bæjarhóll (9) Syðri-Bæjarhóll (10) og syðstur: Fjárhúshóll (11).

VatnsendabærinnOfan úr Vatsendaskál falla lækir tveir, annar skammt út frá túni, nefndur: Stórilækur (12) hinn gegnum tún, milli Bæjarhólanna, nefndur: Bæjarlækur (13) skiptist hann upp frá túni í tvær kvíslar, er sameinast neðan Bæjarhólanna, nefnist hólmi þessi: Kvíatunga (14). Með framburði hafa lækir þessir báðir, myndað grundir nokkrar, niður við og fram í vatnið, er fram frá Bæjarlæk: Bæjareyri (15) en Stóralæk: Vatnsendaeyri, áður nefnd. Sunnan Stóralækjar út frá túni, er: Bæjarholt (16) en norðan hans upp í hlíðarhallanum Stóralækjarbreið (17). Skammt upp frá túni milli lækjanna er: Ytraholt (18) og lítið ofar suður við Bæjarlæk: Syðraholt (19). Sunnan Bæjarlækjar einnig skammt upp frá túni er jarðhitasvæði nokkurt, nefnt: Laugar (20) og neðarlega á því allstór hóll, nefndur Laugahóll (21). Laugar eru hér þó engar. Sunnan Laugahóls og Fjárhúshóls, gengur hallandi breið milli lækjardraga tveggja, allt ofan að horni vatnsins; stendur þar við vatnið bjarg mikið einstakt og einkennilegt að lit, nefnt: Grásteinn (22) nefnist og breið þessi Grásteinsspilda (23) og norðan hennar Grásteinslækur (24). Er öll þessi spilda hið besta túnefni hér, sjálfgert, en hvorki ræktuð né nytjuð, sakir ótta við hefndir huldra vætta. Ofan til á breið þessari er og annað einstakt bjarg, nefnt: Stóristeinn (25). Í klettum þessum, einkum þeim efri hefir fullvíst talist að huldufólk ætti bú. Næst inn frá Grásteinsspildu og henni samhliða er: Stekkjarspilda (26) einnig grösug og í henni stekkjartóft; nefnist utan hennar Stekkjargil (27) en innan Stekkjarlækur (28). Nokkuð sunnar fellur annar meiri lækur, kemur hann yst fram úr skálum þeim er síðar getur, ofarlega í fjalli, um gil það er nefnist: Klettagil (29) og hann því Klettagilslækur (30). Utan hans þar hann fellur niður á Vatnsendamýrar er skriðugrund slétt og gróin nefnd Stekkjargrund (31) virðist þar heygarðstóft gömul og stekkjartóft lítil ofan á henni.

Umhverfið við VatnsendaNæst inn frá vatninu vestur að ánni gengur: Bæjarnes (32). Norðan þess er: Bæjarsíki (33) og þar innst í vatninu Bæjarneshólmi (34) en Sandhólmi (35) skammt utar, nokkuð stærri, beint vestur frá Grásteini. Suðvestur frá enda Bæjarness er: Bæjarneshylur (36) en norðvestur: Bæjarnesvað (37) og yst út við vatnið: Ystavað (38). Suður frá Bæjarnesi er Víðirnes (39) einnig slétt og fagurt engi; norðan þess er Víðirnessíki (40) vestur frá nesinu: Víðirnestangi (41) og sunnan hanns: Víðirneshylur (42). Austan nesja þessara eru Vatnsendamýrar áðurnefndar, einnig mikið samliggjandi engi. Í þeim fremur innantil eru tveir einstakir hólar; nefnist hinn syðri: Strýtuholt (43) hinn ytri: Einstakaholt (44) rétt norðan við það er: Djúpatjörn (45). Nálægt vatninu nokkuð út frá bæ eru stekkjartóftir, nefndar: Gamlistekkur (46) þar fellur og lækur, nefndur: Stekkjarlækur (47). Út að læk þessum ná Vatnsendaholt sem áður getur; enda sögð þar hafa verið takmörk Vatnsendalanda fram á síðustu öld, þótt nú séu allmikið utar og teldust enn utar um sinn.

Vestara VatnshornSkammt út frá Stekkjarlæk er steinn einn við vatnið, ekki stór, nefndur: Gægir (48) og innan við hann lítil vík: Gægisvík (49). Þar út frá eru og þrjár grjóteyrar litlar fram í vatnið, nefndar: Litlugrundir (50). Í neðri brún Vatnsendaskálar, milli lækjanna sem getið var, eru hæðarstallar tveir, skiptir gildrag þeim báðum í tvennt svo melhöfðar verða er nefnast: Neðrihausar (51) og Efrihausar (52) hin efri brúnin, en gildragið: Hausagil (53). Inn frá Hausunum, sunnan Bæjarlækjar, eru Vatnsendabrúnir áðurnefndar, sem framhald af hæðastöllum þessum. Nefnist háhlíðin upp frá þeim, sunnan skálar Vængur (54). Út frá Hausunum, norðan Stóralækjar, er og framhald af hæðabrúnum og næst utan lækjar melbunga allmikil nefnd Rauðafell (55) og lítið eitt utar og ofar önnur lág melbunga nefnd: Efstafell (56). Liggur það út að hnjúk þeim allháum sem þar er yst og vestastur á milli Vatnsendaskálar og Steinnesskálar að utan sem getið mun. Niður frá Rauðafelli er og hæðastallur vel grösugur, nefndur: Grænafell (57). Upp um Vatsendaskál er gangleið fær og kunn til Ólafsfjarðar, er austan hennar farið yfir háfjallið um skarð eitt lítið, nefnt: Afglapaskarð (58). Er upp frá Hausunum áðurnefndu farið um melhrygg, er alllangt nær austur í skálina, nefnist hann Kattarhryggur (59) og neðst á honum stór steinn: Kattarsteinn (60) er sú orsök nafnanna að bræður tveir ungir fylgdu móðir sinni upp á fjall á leið til Ólafsfjarðar, en köttur kom óvænt eftir þeim. Gjörðu þeir honum þá byrgi við steininn og geymdu þar uns þeir komu aftur.

Fyrirdráttur við VatnsendaFyrirdráttur við Vatnsenda

 

 

 

 

 

 

 


Fara efst á síðu